151. löggjafarþing — 114. fundur,  12. júní 2021.

brottfall laga um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis.

558. mál
[22:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Eins og hv. þingmaður veit er þetta mál, sem hann er 1. flutningsmaður að, eitt af þeim þingmálum sem samkomulag hefur verið gert um í þinglok hvernig meðhöndlað verði. Það samkomulag lýtur að því að þessu máli verði vísað til ríkisstjórnarinnar með frávísunartillögu og hv. þingmaður hefur samþykkt það sjálfur. Hv. þingmaður veit það líka sem fyrrverandi félagi í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði að Vinstrihreyfingin – grænt framboð myndi vilja stöðva olíuleit ef hún væri fyrir hendi. Við vitum að engin leit er fyrir hendi eða leyfi til slíkrar leitar. Hv. þingmaður kann vel stefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og þarf kannski ekki að inna mig eftir henni. En þegar svona málum er vísað til ríkisstjórnar er aldrei hægt að gefa sér niðurstöðuna fyrir fram og trúlega kemur ný ríkisstjórn í haust. En vilji Vinstri grænna í þessu máli er og verður sá að það eigi ekki að gefa leyfi til olíuleitar.