151. löggjafarþing — 114. fundur,  13. júní 2021.

kosningalög.

339. mál
[00:13]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Mig langar að byrja á að þakka þeim sem ég þakkaði ekki í ræðu minni um málið, starfsfólki Alþingis, og þá helst nefndarritara sem stillti málinu vel upp fyrir okkur. Það var grundvöllurinn fyrir því að við gátum í sameiningu í nefndinni komist að því hvað það var sem stóð út af, unnið okkur í gegnum það og landað þessu máli sem er heildarendurskoðun á kosningalögum á Íslandi þar sem við náum að samþætta kosningar til sveitarstjórna, Alþingis, forseta og þjóðaratkvæðagreiðslur í eina löggjöf, búa um það umgjörð sem við getum farið að vinna við að uppfæra í heild og tekist á um þau pólitísku álitaefni sem út af standa. Allir voru sammála um að þetta væri mikilvægt skref til að stíga núna og okkur hefur tekist það.

Í lokin vil ég að sjálfsögðu að þakka aftur nefndinni fyrir þá vinnu og svo hæstv. forseta Alþingis, Steingrími J. Sigfússyni, sem lagði fram frumvarpið. Án hans frumkvæðis í þessu máli værum við ekki að klára það í dag. Kærar þakkir.