Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2023.

matvælastefna til ársins 2040.

915. mál
[15:58]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Um leið og þingflokkur Miðflokksins fagnar því að hér séu gerð drög að því að samþykkja fyrstu matvælastefnu sem samþykkt hefur verið þá þykir okkur matvælastefnan eins og hún liggur hér fyrir heldur mikið orðagjálfur miðað við það sem æskilegt væri. Í ljósi þess að hér segir, með leyfi forseta, í greinargerð að stefnan verði „höfð til hliðsjónar við stefnumótun í landbúnaði, sjávarútvegi og fiskeldi …“ þá höfum við áhyggjur af þremur greinum af þessum a–j-greinum þar sem m.a., með leyfi forseta, er talað um að „framleiðsla sem byggist á nýtingu lifandi auðlinda standist öll viðmið um sjálfbærni nýtingar og hafi vísindi vistkerfisnálgunar og varúðar að leiðarljósi“.

Ég vildi gjarnan vita hvað felst í þessari varúð í ljósi orða hæstv. matvælaráðherra, til að mynda gagnvart hvalveiðum og ýmissi annarri auðlindanýtingu. Í ljósi þessa mun þingflokkur Miðflokksins sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu og fylgjast með með hvaða hætti þessari væntanlega fljótlega nýsamþykktu matvælastefnu verður beitt.