135. löggjafarþing — 114. fundur,  30. maí 2008.

staðfest samvist.

532. mál
[00:05]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég fagna auðvitað þessu frumvarpi en gerði við það fyrirvara og lagði til breytingar í þá veru að jafna stöðu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra para í einu og öllu.

Þær breytingar eru byggðar á frumvarpi til laga sem liggur fyrir á þessu þingi þar sem flutningsmenn voru auk mín hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Ögmundur Jónasson, Bjarni Harðarson, Siv Friðleifsdóttir og Grétar Mar Jónsson. Þar eru lagðar til breytingar á hjúskaparlögum. Þar er lagt til brottfall laga um staðfesta samvist, breyting á lögum um lögheimili, breyting á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, breyting á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og breyting á lögum um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda með síðari breytingum. Það liggur klárt fyrir að stíga þetta skref til fulls.

Ég treysti því og geng út frá að prestar sem fá nú þessa heimild til að staðfesta samvist muni ekki mismuna fólki út frá kynhneigð því að það tel ég að standist ekki jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Ég tek undir með hv. formanni allsherjarnefndar að ákvæði hjúskaparlaga sem ég ætlaði að leggja til breytingar á eru fallin niður fyrir notkunarleysi eða „desvetudo“ eins og lögfræðingar kalla það. Ég styð breytingu sem er gerð á 4. mgr. 42. gr. hjúskaparlaga. Við lokameðferð málsins í allsherjarnefnd var bætt inn setningu í nefndarálitið þess efnis að nefndin telji eðlilegt að næsta skref í þessum efnum verði að endurskoða hjúskaparlög með það að markmiði að fella saman í einn lagabálk lagaákvæði um hjúskap og staðfesta samvist.

Við höfum lagt til þessa leið og sýnt hvernig það er hægt. En með hliðsjón af þeim fyrirheitum sem koma fram í nefndarálitinu, frú forseti, þá dreg ég þessa breytingartillögu til baka.