140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:11]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Þetta er búin að vera afar fróðleg umræða og ég hef fylgst mikið með henni. Vegna þess að margir stjórnarliðar tala um að hér sé einhvers konar málþóf í gangi er ágætt að halda því til haga að sá sem hér stendur heldur nú fyrstu ræðu við þessa umræðu um málið. Einnig má nefna að það er mjög mikilvægt í stórum málum eins og þessu hérna, málum sem koma inn á síðustu dögum þingsins, að þinginu og þingmönnum sé gefinn hæfilegur tími til þess að ræða þau. Þetta snertir öll byggðarlög landsins, þetta snertir gríðarlega mörg fyrirtæki, einstaklinga og fjölskyldur og störf margra eru í húfi.

Það er algjörlega óþolandi að fylgjast með því hvernig hæstv. forsætisráðherra lítur ítrekað á þingið sem einhvers konar færiband eða stimpilpúða fyrir framkvæmdarvaldið. Við höfum séð það í þessu máli og í allt of mörgum málum á þessu kjörtímabili. Því miður hefur það aukist eftir því sem liðið hefur á kjörtímabilið. Mér eru minnisstæð orð hæstv. forsætisráðherra eftir páska þar sem hún sagði að það væri alvanalegt að þingið afgreiddi mál á færibandi.

Það kann að vera að það sé alvanalegt í sögunni og að hæstv. forsætisráðherra sem starfað hefur í um 30 ár á þessum vinnustað sé vön slíkum vinnubrögðum. En það eru þessi vinnubrögð sem við þurfum að taka til endurskoðunar. Ef maður les umsagnir frá sveitarfélögum um málið er það eitt af því sem gagnrýnt er gríðarlega mikið hversu slæm vinnubrögðin hafa verið við málið, hversu illa það er ígrundað, hversu margt er vanhugsað sem sett er fram. Á það er bent í greinargerðum og umsögnum sem ég ætla að koma að í máli mínu á eftir.

Síðan er rétt að halda því líka til haga að við erum ekki að ræða fiskveiðistjórnarkerfið við þessa umræðu eða breytingar á því, hvaða breytingar þurfi að gera á því og með hvaða hætti. Við erum eingöngu að ræða um veiðigjaldið, við erum eingöngu að ræða um það gjald sem ætlunin er að setja á þá sem nýta sjávarauðlindina. Við erum ekki að ræða neinar aðrar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu í þessu frumvarpi. Þær eru í öðru frumvarpi sem enn er í atvinnuvegnanefnd og hefur ekki komið hér til umræðu.

Ég verð að segja það að það er sláandi að sjá þegar maður les allar umsagnir og skýrslur og annað sem unnið hefur verið að í kringum málið, hversu illa það mun koma við landsbyggðina og þar tala ég ekki máli LÍÚ eða annars, ég er eingöngu að vitna til umsagna sem sveitarfélög allt í kringum landið, jafnvel þar sem oddvitar sveitarfélaganna koma úr liði stjórnarliðsins, úr flokki hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, gagnrýna mjög þetta frumvarp, eins og ég mun koma að á eftir.

Ég vil í upphafi koma inn á greinargerð sem unnin var af sérfræðihópi sem skipaður var af atvinnuveganefnd þingsins og hefur verið töluvert til umræðu í fjölmiðlum varðandi þetta mál. Sú greinargerð ber heitið Greinargerð um efnahagslegar og byggðalegar afleiðingar samþykktar 657. þingmáls, lög um stjórn fiskveiða, og 658. þingmáls, lög um veiðigjöld. Henni var skilað inn 2. maí 2012. Í apríl 2012 fékk atvinnuveganefnd Alþingis þá Daða Má Kristófersson, dósent við Háskóla Íslands, og Stefán B. Gunnlaugsson, lektor við Háskólann á Akureyri, til að taka saman þessa greinargerð. Þarna er á engan hátt hægt að tala um að þessir menn séu fengnir til verksins í pólitískum tilgangi, hvorki af stjórnarandstöðu né stjórnarliði. Þetta eru einfaldlega fræðimenn sem beðnir voru um að fara yfir áhrif þessa máls á sjávarútvegsfyrirtæki, sveitarfélög, ríkissjóð og byggðir landsins.

Það er sláandi að sjá óvissuna sem af þessu hlýst í kaflanum um veiðigjöld, af því að hér ræðum við eingöngu um veiðigjöldin og því fjalla ég ekki um fiskveiðistjórnarfrumvarpið sem slíkt að svo stöddu. Í fyrsta lagi er fjallað um að sú reikniformúla sem sett var til grundvallar í upphafi og frumvarpið byggist á hefði gert ráð fyrir 140% auðlindarentu ef þessari reikniformúlu hefði verið beitt á tímabilinu 2006–2010 þannig að þar komu fyrstu mistökin fram. Þar koma fyrstu mistök ríkisstjórnarinnar í málinu fram og er eitt af því sem haft getur alvarlegar afleiðingar af því að ríkisstjórnin lagði málið allt of seint fram. Hún ráðfærir sig ekki við nokkurn, mál eru unnin í þröngum hópi og síðan er ætlast til þess að þau séu afgreidd í gegn á færibandi.

Hvað hefði til að mynda gerst ef hæstv. forsætisráðherra hefði orðið að ósk sinni um að þetta mál hefði verið afgreitt á færibandi, eins og hæstv. forsætisráðherra óskaði eftir, og svona stór mistök hefðu verið í frumvarpinu? Það sjáum við allt of oft, það er fyrst og fremst vegna þess að ríkisstjórnin kemur ekki með málin í þingið í upphafi þings eins og ætlast er til. Ætlast er til þess að málin komi í þing í upphafi starfsárs, þau unnin í nefndum í þinginu, fari til umsagnar o.fl. og verði síðan samþykkt sem lög frá Alþingi í seinni hluta eða í lok þings. En eins og verið hefur í tíð núverandi ríkisstjórnar og líklega í tíð fyrri ríkisstjórna koma frumvörpin fram á síðustu metrunum fyrir þinglok — þingið er nær atvinnulaust fyrstu mánuðina á haustin — og þá er ætlast til þess að þau séu afgreidd á færibandi eins og hæstv. forsætisráðherra sagði.

Það er sláandi að sjá hvað þessir ágætu fræðimenn segja um veiðigjaldið, með leyfi frú forseta:

„Skatthlutfall sérstaks veiðigjalds verður að teljast mjög hátt, sérstaklega í ljósi þeirra ágalla sem nefndir hafa verið. Ljóst er að afleiðingar gjaldtöku af þessu umfangi eru verulegar, bæði fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi og tengdum greinum, starfsfólk og sjávarbyggðir. Nýlega voru samþykkt lög á Alþingi um skattlagningu kolvetnisauðlinda, nr. 109/2011. Athygli vekur að skattlagning þeirra ónumdu gas- og olíuauðlinda sem hugsanlega munu finnast á hafsbotni, er hóflegri en tillögur frumvarps um veiðigjöld. Að teknu tilliti til allra þessara ágalla er niðurstaðan sú að umfang gjaldtöku samkvæmt frumvarpinu sé langt umfram það sem útgerðin getur staðið undir.“

Svo segir hér áfram, með leyfi frú forseta:

„Að lokum ber að undirstrika að ekki er hægt að horfa á álagningu veiðigjalda afmarkað. Samræmi verður að vera milli gjaldtöku og annarrar umgjarðar fiskveiðistjórnarkerfisins. Ef vegið er að möguleikum til hagræðingar og langtímahagkvæmni mun það skerða umfang auðlindarentunnar og draga úr getu útgerðarinnar til að standa undir veiðigjöldum. Gjaldtaka, sem er hófleg ein sér, getur verið óhófleg skoðuð í samhengi við önnur ákvæði.“

Þarna er verið að segja að það er mikilvægt að skoða málið allt í heild sinni. Það er mikilvægt að skoða hvernig hitt frumvarpið mun líta út og það veit raunar enginn eins og landið liggur í dag. Það er mikill vandræðagangur með það mál innan ríkisstjórnarinnar og það veit enginn hvernig stendur hér í þinginu. Það sem einnig er verið að segja þarna er að ekki er hægt að skattleggja eina atvinnugrein, einstaklinga eða aðra svo mikið að ekki sé með nokkru móti mögulegt að reka viðkomandi fyrirtæki á eftir. Það mun því miður gerast í þessu tilfelli. Þarna er ekki um að ræða einhverja hagsmunagæslu fyrir einstakar útgerðir landsins. Þarna er bara um að ræða „common sense“, eins og maður segir, ég leyfi mér að sletta, frú forseti.

Staðreyndin er sú að maður getur ekki lagt meiri klyfjar á herðar einstökum fyrirtækjum og einstaklingum en viðkomandi getur borið. En því miður erum við búin að sjá það allt of oft að ríkisstjórnin telur að mögulegt sé að skattleggja í excel-forritum í Reykjavík hvort sem er landsbyggðina, einstaklinga eða fyrirtæki fram úr öllu hófi á sama tíma og við horfum upp á að ríkissjóður dregur ekki úr útgjöldum sínum með sama hætti.

Ég óskaði eftir því í lok síðasta árs að tekinn yrði saman kostnaður við flugferðir ríkisstjórnarinnar til útlanda á síðasta ári og það voru sláandi niðurstöður sem komu út úr því. Flugfargjöldin námu hundruðum milljóna króna og var um þúsundir ferða að ræða þar sem starfsmenn í boði ríkissjóðs voru á ferðalögum hingað og þangað. Það nam tugum ferða til tunglsins, frú forseti. Við horfum því upp á það að ríkisstjórnin sker niður úti á landi og leggur skatt á einstaklinga og fyrirtæki en sker síðan ekki niður nær sér.

Þessi skýrsla er um margt athyglisverð og í rauninni mikill áfellisdómur fyrir það frumvarp sem fyrir liggur um veiðigjöld þar sem beinlínis er sagt að þetta muni koma sér mjög illa fyrir fyrirtæki landsins og einstök sveitarfélög. Ég minni á það enn og aftur að hér er um skýrslu óháðra fræðimanna að ræða, hér er ekki um keypta skýrslu frá hagsmunasamtökum eða ríkisstjórn eða öðrum að ræða. Síðar í skýrslunni er fjallað um áhrif á byggðaþróun og þar er hægt að finna upphæðir þessarar gjaldtöku á einstök sveitarfélög þar sem búið er að heimfæra það á einstök sveitarfélög til að sjá hver skattheimtan yrði miðað við úthlutun tonna í þorskígildum. Ég fylgdist með ræðu hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar sem kemur úr Norðausturkjördæmi. Hann fjallaði um áhrifin á það kjördæmi.

Mig langar að lesa upp úr skýrslunni og fjalla um áhrif veiðigjaldsins á Norðvesturkjördæmi, en það nær, eins og flestir vita, frá botni Hvalfjarðar að Öxnadalsheiði. Þar er undir Snæfellsnesið, Vestfirðirnir, Norðurland vestra, Vesturland.

Á Akranesi yrði veiðigjaldið um 658 millj. kr., á Rifi 541 millj. kr., á Sauðárkróki 531 millj. kr., í Bolungarvík 436 millj. kr., í Grundarfirði 420 millj. kr., á Ísafirði 366 millj. kr., á Ólafsvík 226 millj. kr., á Skagaströnd 268 millj. kr., á Patreksfirði 175 millj. kr., í Stykkishólmi 154 millj. kr., í Hnífsdal 183 millj. kr. og á Þingeyri 136 millj. kr.

Sé þetta lagt saman er veiðileyfagjaldið 4 milljarðar kr. í Norðvesturkjördæmi. Frú forseti. Það sjá það allir og bent er á það í þessari úttekt að þetta muni fara mjög illa með einstakar sjávarbyggðir. Það er auðvitað ekki hægt að halda öðru fram og það er ekki hægt að segja, það er svo ódýr málflutningur, að þeir sem benda á þessar tölulegu staðreyndir séu einhvers konar handbendi einkarekinna fyrirtækja, það er ekki boðlegur málflutningur. Þeir hinir sömu hljóta þá að meina að þessir ágætu fræðimenn sem vinna þessa úttekt séu handbendi einkafyrirtækja og LÍÚ. Eru þessir ágætu einstaklingar, Daði Már Kristófersson, dósent við Háskóla Íslands, og Stefán B. Gunnlaugsson, lektor við Háskólann á Akureyri, handbendi LÍÚ? Nei, þeir eru fræðimenn sem benda á áhrifin af þessu máli eins og það liggur fyrir, eins og það kom frá hv. atvinnuveganefnd.

Það er líka hægt að tala um hvernig einstök sveitarfélög fjallað um málið, því að mörg sveitarfélög hafa skilað inn umsögnum um það. Mig langar aðeins að fara yfir hvað sveitarfélög í Norðvesturkjördæmi hafa sagt um málið. Ég ætla fyrst að lesa umsögn frá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Þar er ágætt að halda því til haga áður en ég byrja þennan lestur að formaður þeirra samtaka er flokksbróðir hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og oddviti Vinstri grænna í Skagafirði þannig að sá maður verður líklega seint sakaður um að vera handbendi stjórnarandstöðunnar í þessu máli.

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra skiluðu inn umsögn 25. apríl. Þar segir, með leyfi frú forseta:

„Minnt skal á að undanfarin ár hefur svæðið mátt búa við samdrátt á ýmsum sviðum“ — þ.e. Norðurland vestra. Þar hefur orðið fólksfækkun, einkum og sér í lagi vegna niðurskurðar í heilbrigðisþjónustu og niðurskurðar í opinberum störfum vegna fjárlaga hæstv. ríkisstjórnar. — „Það að boða stórfellda gjaldtöku á fyrirtækjum í sjávarútvegi er því bein aðför að stöðu Norðurlands vestra.

Með fyrirliggjandi frumvörpum um stjórn fiskveiða er vegið að afkomuöryggi sjávarbyggða, þeirra sem starfa í greininni og fyrirtækja í sjávarútvegi, jafnt stórra en ekki síst smærri útgerða.“

Það er nefnilega svo, frú forseti, að það eru ekki síst smærri útgerðirnar sem munu fara illa út úr þessu veiðigjaldi.

„Þá er horfið frá mikilvægum byggðatengingum.“

Eins og við munum voru frumvörp í vinnslu hjá hæstv. ríkisstjórn sem fólu það í sér að veiðigjöldin mundu renna að einhverju leyti til landsbyggðarinnar, til samtaka sveitarfélaga á landsbyggðinni, til atvinnuuppbyggingarverkefna á landsbyggðinni o.fl. En núverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra breytti því og ákvað að það skyldi allt renna beint í ríkissjóðshítina og það yrðu engar byggðatengingar hvað snerti þetta veiðigjald. Það er væntanlega það sem verið er að gagnrýna hér.

Svo segir áfram, með leyfi frú forseta:

„Samkvæmt útreikningum endurskoðunarfyrirtækisins KPMG mun veiðigjald útgerða á Norðurlandi vestra nema 933 millj. kr. auk þess sem varanlegar aflaheimildir á svæðinu dragast saman um 567 þorskígildistonn …“

Skattheimtan mun verða 933 millj. kr. á útgerðir á Norðurlandi vestra.

Hér segir svo áfram, með leyfi frú forseta:

„Engum dylst nauðsyn þess að gera verður breytingar á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi til að ná betri sátt um einn af grunnatvinnuvegum þjóðarinnar og tryggja verður þjóðareign á sjávarauðlindum. Sú „sátt“ getur ekki orðið eingöngu á kostnað sjávarbyggða og landsbyggðarinnar.“

Frú forseti. Þetta eru þung orð. Mig langar að lesa þau aftur, með leyfi frú forseta:

„Sú „sátt“ getur ekki orðið eingöngu á kostnað sjávarbyggða og landsbyggðarinnar.“

Þetta er frá Samtökum sveitarfélaga í Norðurlandi vestra.

Mig langar að minna aftur á það, frú forseti, að formaður þessara samtaka er flokksbróðir hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Varla verða þessi samtök því sökuð um að tala máli stjórnarandstöðunnar. Þetta eru samtök sem tala fyrir hagsmunum þeirra sveitarfélaga sem búa á Norðurlandi vestra, sveitarfélaga sem máttu búa við fólksfækkun allan útrásartímann, allan þenslutímann í Reykjavík meðan hér voru hundruð byggingarkrana að byggja hús og blokkir sem engin innstæða var fyrir. Þá fækkaði fólki í þessum sveitarfélögum. Hvað hefur gerst eftir hrun? Vegna niðurskurðartillagna ríkisstjórnarinnar, m.a. í heilbrigðismálum, hefur fólki haldið áfram að fækka á Norðurlandi vestra eftir að stjórnin tók við völdum. Þeir ágætu sveitarstjórnarmenn sem mynda þessi samtök hafa gríðarlegar áhyggjur af því að fólksfækkunin muni halda áfram og að þetta muni ekki stuðla að eflingu landsbyggðarinnar — 933 millj. kr.

Svo er það Grundarfjarðarbær. Það verður seint talað um að þar sé bæjarstjórn sem sé handbendi stjórnarandstöðunnar. Bæjarráð Grundarfjarðarbæjar sendi frá sér ályktun eða umsögn þann 23. apríl 2012.

Þar segir, með leyfi frú forseta:

„Bæjarráð Grundarfjarðar getur ekki mælt með fyrirliggjandi frumvarpi um stjórn fiskveiða og veiðigjöld.“

Svo er það rakið og vinnubrögðin gagnrýnd. Bæjarráðið hvetur Alþingi til að vanda til verka og segir að mikilvægt hefði verið að skoða áhrifin af þessu máli áður en það var lagt fram þannig að þessari atvinnugrein væri ekki steypt út í óvissuna eins og gert hefur verið ítrekað af sitjandi ríkisstjórn.

Svo segir, með leyfi frú forseta:

„Bæjarráð telur að heildaráhrif frumvarpanna muni hafa skaðleg áhrif á afkomu sveitarfélagsins, sjómanna, fyrirtækja í sjávarútvegi og uppbyggingu fiskmarkaða.“

Undir þetta ritar Björn Steinar Pálmason bæjarstjóri fyrir hönd bæjarráðs Grundarfjarðar.

Ekki verður sagt að í Grundarfirði sé bæjarstjórn sem sé handbendi stjórnarandstöðunnar, síður en svo.

Svo kemur Skagafjörður. Byggðaráð Skagafjarðar sendi frá sér umsögn þann 18. apríl 2012 um það mál sem við ræðum hér. Þar segir, með leyfi frú forseta, og ég vil benda á það áður en ég les þessa umsögn að formaður byggðaráðs Skagafjarðar er frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, flokksbróðir hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Þarna segir, með leyfi frú forseta:

„Við undirrituð vörum Alþingi sterklega við því að samþykkja fyrirliggjandi frumvarp ríkisstjórnarinnar um stjórn fiskveiða og veiðigjöld.“

Svo er vitnað til þeirra varnaðarorða sem fram koma í óháðri úttekt Daða Más Kristóferssonar og Stefáns Gunnlaugssonar. Í ljósi þeirra varnaðarorða sem þar eru segir, með leyfi frú forseta:

„Undirritaðir telja að þau varnaðarorð sem fylgja frumvörpunum séu meira en næg ástæða fyrir alþingismenn til að leggja málin til hliðar frekar en að stuðla að því að lögfesta þau og stuðla þannig að „umhleypingum“ með alvarlegum afleiðingum fyrir fólk og fyrirtæki í sjávarbyggðum landsins, m.a. mögulegri lækkun launa sjómanna og fiskverkafólks, lækkunar útsvarstekna sveitarfélaga, minni fjárfestingargetu sjávarútvegsfyrirtækja á landsbyggðinni og þar með enn minni atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni en nú er. Við slíkt verður ekki unað.“

Undir þetta ritar byggðarráð Skagafjarðar í heild sinni, einn byggðarráðsfulltrúi var með sérstaka bókun. Sá sem ritar undir þetta er oddviti Vinstri grænna í Skagafirði og formaður byggðaráðs þannig að seint verður talað um þetta sé komið beint frá stjórnarandstöðunni.

Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar sendi inn umsögn um málið 20. apríl 2012.

Þar segir, með leyfi frú forseta:

„Bæjarráð Stykkishólms hélt fund miðvikudaginn 12. apríl sl. Á fundinum var eftirfarandi umsögn samþykkt …“

Þar er sagt hreint og klárt, með leyfi forseta:

„Við undirrituð leggjum þunga áherslu á að veiðigjöld verði sanngjörn og ógni ekki rekstri útvegsfyrirtækja.“

Það er heldur ekki hægt að tala um að stjórnarandstaðan sé við völd í Stykkishólmi því að forustumaður sveitarstjórnar Stykkishólmsbæjar kemur úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Hér er um að ræða sveitarfélög á Norðurlandi vestra. Þarna draga menn ekki taum neins pólitísks afls, þetta eru einfaldlega einstaklingar sem búa í þessum samfélögum og vilja gæta hagsmuna samfélaga sinna, samfélaga sem hafa mátt búa við gríðarlega fólksflutninga frá þessu svæði að undanförnu og fólk hefur áhyggjur af því að eina atvinnugreinin sem eftir er sé sett í enn meiri óvissu.

Ég ætla að halda áfram, frú forseti, því að það eru fleiri umsagnir. Ég á eftir að lesa umsagnir frá Bolungarvík, Snæfellsbæ, Vesturbyggð og Tálknafirði. Þær eru allar með sambærilegum hætti.

Bolungarvíkurkaupstaður sendi umsögn til atvinnuveganefndar 20. apríl 2012.

Þar segir, sem er athyglisvert:

„Bolvíkingar hafa á undanförnum tveimur áratugum gengið á gegnum algjöra endurskipulagningu á sjávarútvegi og má segja að nánast allar aflaheimildir í sveitarfélaginu hafi verið keyptar eftir að sveitarfélagið var nánast orðið kvótalaust. Stærstur hluti þeirra hefur verið keyptur á síðustu 10 árum.“

Þarna kemur það fram sem talað hefur verið um og er staðreynd, þ.e. að í mörgum sveitarfélögum eru starfandi útgerðir, sumar eru reknar af einstaklingum en þær eru líka oft reknar af samfélaginu og margir sem koma að því sem hafa keypt aflaheimildir af útgerðarmönnum sem flutt hafa burt af svæðinu eða sem hætt hafa rekstri. Þessir aðilar sem hafa reynt að halda atvinnu í heimabyggð sinni og hafa áhyggjur af framvindu mála. Þeir verða seint flokkaðir sem einhvers konar sægreifar, eins og hv. þingflokkur Samfylkingarinnar segir oft um þá sem starfa við sjávarútveg.

Í umsögninni segir, með leyfi frú forseta:

„Það er krafa bæjarráðs Bolungarvíkur að Alþingi beiti vandaðri vinnubrögðum í viðleitni sinni til breytinga á fiskveiðilöggjöfinni og falli frá þeirri stefnu að ráðast að undirstöðum sjávarbyggða og þeim fyrirtækjum sem þar eru vonandi að komast á legg, með jafnóskammfeilnum hætti og gert er í umræddu frumvarpi um veiðigjald.“

Ég held að þessi orð dæmi sig algjörlega sjálf. Þarna bendir sveitarstjórn Bolungarvíkur einfaldlega á að það er ekki hægt að leggja fram mál sem er jafnilla unnið og þetta og sem mun leika landsbyggðina svo grátt.

Bæjarstjórn Snæfellsbæjar sendi einnig inn umsögn 20 apríl 2012. Þar segir, með leyfi frú forseta:

„Deloitte skoðaði 24 útgerðarfélög í Snæfellsbæ þar sem hluti félaganna er bæði í útgerð og vinnslu og öll félögin hafa meira en 100 tonn í úthlutuðum afla. Það kemur í ljós að af þessum 24 félögum sem í úrtakinu voru eru 17 sem talið er að ekki geti staðið við núverandi greiðsluskuldbindingar verði frumvarp um veiðigjöld að lögum óbreytt.“

17 félög af 24 sem óháð fyrirtæki skoðar í Snæfellsbæ verða gjaldþrota ef þetta mál nær fram að ganga. Hvernig getur það styrkt hinar dreifðu byggðir landsins að 17 af 24 útgerðum sem óháður aðili skoðar muni fara í þrot?

Svo segir áfram, með leyfi frú forseta:

„Það er von okkar í Snæfellsbæ að atvinnuveganefnd Alþingis og alþingismenn allir íhugi alvarlega þær staðreyndir sem hér eru dregnar fram um afleiðingar þess ef umrætt frumvarp nær fram að ganga. Þetta mál skiptir það miklu fyrir sjávarbyggðirnar að ef alþingismenn draga í efa þær upplýsingar sem koma fram í umsögn þessari séu réttar þá skorum við í Snæfellsbæ [...] á hina sömu að koma með útreikninga sem sýna hið gagnstæða.“

Þetta er ákall sveitarstjórnar Snæfellsbæjar til okkar alþingismanna um að taka ekki þátt í því að 17 af 24 fyrirtækjum í sveitarfélaginu verði gjaldþrota.

Ég ætla að halda áfram að lesa. Vesturbyggð fjallar um málið í umsögn sem send var 23. apríl 2012.

Þar segir, með leyfi frú forseta:

„Vandséð er hvernig þessum frumvörpum er ætlað að styðja við áform um að byggja upp öflugri samfélög á landsbyggðinni. [...] Bæjarstjórn Vesturbyggðar varar stjórnvöld við að taka vanhugsaðar ákvarðanir sem geti stuðlað að hruni í sjávarútvegi og tengdum greinum, atvinnuleysi og þar með fólksflótta á [sic] landsbyggðinni. Þau varnaðarorð sérfræðinga sem fylgja lagafrumvörpunum og þeir útreikningar óháðra aðila sem sveitarfélögin hafa látið vinna ættu að vera ærin ástæða fyrir alþingismenn að endurskoða frumvörpin, frekar en að stuðla að lögfestingu þeirra og stuðla þannig að „umhleypingum“ með alvarlegum afleiðingum fyrir fólk og fyrirtæki í sjávarbyggðum landsins …“

Vesturbyggð er sveitarfélag á sunnanverðum Vestfjörðum sem hefur mátt glíma við gríðarlega fólksflutninga af svæðinu og einnig við vandamál við að fá lagðan veg til sín vegna lítillar þekkingar fólks á mikilvægi samgangna og vegna stríðs við litla aðila um lagningu vegar í gegnum Teigsskóg í Austur-Barðastrandarsýslu. Þetta fólk er bara að biðja okkur alþingismenn um að leggja ekki sveitarfélagið algjörlega niður …“

Síðan er það Tálknafjörður, sem er lítið sveitarfélag á sunnanverðum Vestfjörðum sem hefur mátt glíma við gríðarlega fólksfækkun á undanförnum áratugum.

Umsögn hreppsnefndar Tálknafjarðar barst þinginu í lok apríl. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hreppsnefnd tekur heils hugar undir þá ályktun sem sveitarstjórn Skagafjarðar hefur sett fram um málið þar sem segir …“ — Ég ætla að rifja það upp, með leyfi forseta:

„Undirritaðir telja að þessi varnaðarorð, sem fylgja frumvörpunum, séu meira en næg ástæða fyrir alþingismenn til að leggja máli til hliðar frekar en að stuðla að því að lögfesta þau og stuðla þannig að „umhleypingum“ með alvarlegum afleiðingum fyrir fólk og fyrirtæki í sjávarbyggðum landsins, m.a. mögulegri lækkun launa sjómanna og fiskverkafólks, lækkunar útsvarstekna sveitarfélaga, minni fjárfestingargetu sjávarútvegsfyrirtækja á landsbyggðinni og þar með enn minni atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni en nú er. Við slíkt verður ekki unað.“

Ég rifja það aftur upp að oddvitinn í Skagafirði kemur úr hópi Vinstri grænna og er flokksfélagi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þannig að það verður seint sagt að hann dragi vagn stjórnarandstöðunnar.

Síðasta ályktunin sem ég ætla að lesa upp kemur úr Norðvesturkjördæmi og er frá Fjórðungsþingi Vestfirðinga sem haldið var í Bolungarvík 2.–3. september 2011. Ég ætla að gera að umtalsefni þá ályktun á þeim mínútum sem ég á eftir af ræðu minni.

Þar segir, með leyfi frú forseta:

„56. fjórðungsþing Vestfirðinga, haldið í Bolungarvík 2.–3. september 2011, skorar á Alþingi að tryggja að það auðlindagjald sem nú er innheimt af vestfirskum aflaheimildum og öll aukning þess renni til uppbyggingar atvinnulífs á Vestfjörðum. Auðlindagjaldið renni til rannsókna, nýsköpunar og í fjárfestingarsjóð fyrir vestfirskar byggðir.“

Er til of mikils mælst að þau sveitarfélög sem hafa mátt glíma við gríðarlega fólksfækkun á undanförnum árum og róa lífróður um þessar mundir leggi fram þá beiðni eða kröfu að auðlindagjald, sem nemur 4 þúsund milljónum í Norðvesturkjördæmi, renni til uppbyggingar þeirra sveitarfélaga sem þurfa að inna slíkt gjald af hendi? Hér voru frumvörp í vinnslu hjá fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem gerðu ráð fyrir því að þetta gjald rynni aftur til landsbyggðarinnar. En núverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra breytir þessu og ákveður að það skuli renna beint inn í ríkissjóð. Að gefnu tilefni hafa margir aðilar allt í kringum landið, í hinum dreifðu byggðum, gríðarlegar áhyggjur af því þegar 4 þúsund milljónir renna úr Norðvesturkjördæmi beint í ríkissjóð. Af hverju? Vegna þess að sporin hræða. Ef við horfum á hvernig gengið hefur undanfarin ár að reka hér einhvers konar byggðastefnu, að halda opinberum störfum á landsbyggðinni, hefur það ekki gengið mjög vel. Við sjáum það til að mynda í fjárlagagerð hæstv. ríkisstjórnar undanfarin ár að þegar komið hefur verið fram með tillögur um gríðarlegan niðurskurð í heilbrigðisgeiranum að það hefur gengið eftir að verulegum hluta. Það hefur leitt til þess að opinberum starfsmönnum hefur fækkað gríðarlega á landsbyggðinni, það hefur dregið úr grunnheilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni og við horfum upp á að það sama er gerast á öðrum sviðum. Í löggæslumálum hefur verið gríðarlegur niðurskurður og gríðarleg fækkun hefur orðið á opinberum störfum, til að mynda á Norðurlandi vestra sem ég vitnaði til áðan. Fækkunin hleypur á tugum starfa frá árinu 2008.

Finnst mönnum trúlegt að ríkisstjórn sem gengið hefur fram með slíkum hætti gagnvart landsbyggðinni ætli að innheimta veiðigjald úr Norðvesturkjördæmi upp á 4 þúsund milljónir til að útdeila því aftur þangað? Finnst einhverjum það trúlegt? Og finnst einhverjum skrýtið þó að forustumenn í sveitarstjórnum allra þeirra sveitarfélaga sem gáfu umsagnirnar sem ég las upp úr áðan hafi áhyggjur af því að þessi skattheimta muni renna öll í hítina hér á höfuðborgarsvæðinu, í ráðuneytin og ríkisstofnanirnar sem blása út á höfuðborgarsvæðinu, Náttúrufræðistofnun, Umhverfisstofnun o.fl.? Það er þess vegna sem þetta ágæta fólk úr öllum flokkum, óháð pólitískum skoðunum, talar um hreinan og kláran landsbyggðarskatt því að þetta er ekkert annað en landsbyggðarskattur þegar þúsundir milljóna eiga að renna af landsbyggðinni til Reykjavíkur. Ef vilji væri til þess að verja landsbyggðina hefðu menn lagt það til að þessir fjármunir rynnu aftur til landsbyggðarinnar, til samtaka sveitarfélaga, til atvinnuuppbyggingarverkefna eins og Vestfirðingar hafa óskað eftir, til uppbyggingar atvinnulífs á Vestfjörðum, en nei, það er ekki raunin. Þetta á að renna í ríkissjóð, það eru engar byggðatengingar þarna á ferðinni. Það gagnrýna allir sem um málið hafa fjallað á landsbyggðinni og er ekki vanþörf á.

Svo koma hér stjórnarliðar, jafnvel nefndarmenn úr hv. atvinnuveganefnd sem haft hefur málið til umfjöllunar, og segja: Þetta gjald mun styrkja landsbyggðina, þetta gjald upp á 4 þúsund milljónir í Norðvesturkjördæmi mun styrkja landsbyggðina.

Hvernig fá menn það út að þetta muni styrkja landsbyggðina? Engir, hvorki þeir óháðu sérfræðingar sem fjallað hafa um málið og skiluðu gögnum með frumvarpinu né nokkurt einasta sveitarfélag á landsbyggðinni, tala um að þetta muni styrkja landsbyggðina. Hvernig leyfist þingmönnum í hv. atvinnuveganefnd þingsins sem koma frá landsbyggðinni að tala um að þessi frumvörp styrki landsbyggðina? Það er bara eitt sem hægt er að segja við slíkum málflutningi: Ég held að það væri æskilegast að sitjandi ríkisstjórn, hæstv. ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, hætti nú öllum styrkingum við landsbyggðina því að ég er ekki viss um að landsbyggðin þoli fleiri byggðastyrkingar sambærilegar þeim sem hún leggur til hér, því að þetta er ekki styrkur við landsbyggðina. Maður hlýtur að spyrja sig að því hvort landsbyggðin muni eiga von á fleiri byggðastyrkingum eins og þessari. Ef svo er held ég að menn verði að svara því af sömu festu.

Það vantar hins vegar raunverulega byggðastefnu sambærilega þeirri sem er til að mynda í Noregi þar sem um er að ræða skattaívilnanir því lengra sem maður býr frá höfuðborginni. Þar sem er um að ræða ýmsar aðgerðir, beinar og óbeinar, sem eiga að hvetja fólk til þess að flytja út á landsbyggðina, til þess að byggja upp atvinnustarfsemi á landsbyggðinni o.fl. (Forseti hringir.) Þetta mál styrkir ekki landsbyggðina og það er (Forseti hringir.) ekki hægt að fjalla um það með þeim hætti eins og (Forseti hringir.) sumir hv. stjórnarliðar hafa gert.