143. löggjafarþing — 114. fundur,  15. maí 2014.

Landsbankabréfið.

[11:08]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ef Icesave-samningarnir hefðu verið samþykktir þyrftum við ekkert að vera að velta þessu fyrir okkur því að þá hefðu menn augljóslega ekkert fjármagn, engan gjaldeyri til að standa í skilum hvað þetta bréf varðar og bankinn gæti ekki einu sinni reynt að leggja fram slíka samninga.

Það hentaði ekki bankanum illa, segir hv. þingmaður, að hafa bréfið í erlendri mynt. Ég skal ekki segja um það, en það hentar mjög illa íslenskri þjóð sem prentar ekki evrur, dollara eða pund að hafa þetta skuldabréf í erlendri mynt vegna þess að þjóðarbúið skortir gjaldeyri. Þjóðarbúið skortir gjaldeyri og Landsbankinn hefur sogað til sín töluvert af þeim gjaldeyri sem hefur orðið til hér í samfélaginu til þess að borga af bréfum í erlendri mynt vegna þess að það var samið á þann hátt. En það að hleypa jafnvel hundruðum milljarða úr landi með undanþágu frá gjaldeyrishöftunum á meðan aðrir verða áfram lokaðir inni í höftunum og borga jafnvel fyrir þá undanþágu (Forseti hringir.) getur ekki verið ásættanlegt.