143. löggjafarþing — 114. fundur,  15. maí 2014.

upplýsingar um skuldabréf Landsbankans.

[11:15]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég get ekki annað en ítrekað það sem ég hef bent á, stjórnvöld eiga ekki aðild að þessu samkomulagi. Það er unnið á milli tveggja fyrirtækja, tveggja lögaðila, gamla og nýja Landsbankans, samkvæmt kerfi sem var komið á af stjórnvöldum á síðasta kjörtímabili, þ.e. uppskiptingu þessara banka. Þá var samið um þetta skuldabréf, reyndar með einhverri aðkomu stjórnvalda á síðasta kjörtímabili, en þau svo skildu málið eftir hjá þessum bönkum eða fjármálastofnunum. (BirgJ: Voru …?) Núverandi stjórnvöld hafa enga aðkomu að því. (Gripið fram í.) Nú kallar hv. (BirgJ: … til þess að skrifa undir trúnaðar…) þingmaður fram í …

Virðulegur forseti. (Forseti hringir.)

(Forseti (KLM): Forseti verður að óska eftir því að úr þingsal sé ekki haldið áfram með ræður. Forsætisráðherra hefur orðið.)

Virðulegur forseti. Fulltrúar þingmanna verða upplýstir um þessi mál, að sjálfsögðu. Ég geri ráð fyrir að menn telji þetta það mikilvægt að þeir falist eftir fríi úr vinnu í svo sem klukkutíma ef með þarf. (BirgJ: … skrifa undir …) Þetta er hins vegar, eins og ég hef margítrekað, ekki á borði stjórnvalda, því miður. Þannig var samið um málið á síðasta kjörtímabili. Stjórnvöld gáfu það frá sér að hafa á þessu skoðun, þ.e. hvernig bankanum var skipt upp. Það var klárað með hætti sem ég taldi mjög óásættanlegan eins og er að koma betur og betur í ljós. Hvað geta stjórnvöld þá gert? Jú, þau geta að minnsta kosti komið í veg fyrir að gerðir séu samningar (Forseti hringir.) sem byggja á undanþágu þar sem einum aðila er sleppt úr höftum á meðan aðrir sitja eftir.