143. löggjafarþing — 114. fundur,  15. maí 2014.

yfirlýsingar forsætisráðherra um ýmsar dagsetningar.

[11:28]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það eina sem ég gerði var að segja að gert væri ráð fyrir að þingstörfum lyki þann 16. maí, þ.e. að síðasti þingfundadagur væri í dag, 15., og þegar þingstörfum lyki ættu menn að geta sótt um. Það liggur fyrir að þegar þingstörfunum lýkur, þegar menn klára að afgreiða þetta mál héðan úr þinginu, getur fólk sótt um. (SSv: Er það á morgun?) Ástæðan fyrir því að það er ekki þann 15. er sú að stjórnarandstaðan tók að ég held nokkra daga samanlagt í að ræða fundarstjórn forseta til dæmis, (Gripið fram í.) voru það ekki þúsund ræður um fundarstjórn forseta? (Gripið fram í.)Annað eins hefur aldrei gerst í sögu þingsins. (Gripið fram í: Hvenær má … ) Nokkrir dagar teknir í málþóf um hin smæstu mál með þeim afleiðingum að það dregst um (Gripið fram í: Ríkisstjórnin …) einn eða tvo daga að klára að afgreiða málið í þinginu. En áætlunin stenst, áætlunin um að það verði hægt að sækja um þetta strax og þinginu þóknast að afgreiða málið, strax og réttara sagt stjórnarandstöðunni þóknast að hætta að vera í málþófi um önnur (Forseti hringir.) mál. Nú tel ég að hún hafi sætt sig við það að málin séu að klárast (Gripið fram í.) og láti af málþófi og þá mun sú áætlun (Forseti hringir.) standast að menn geti sótt um skuldaleiðréttingu strax — strax — (Gripið fram í: Á morgun?) og málið er afgreitt í þinginu.