144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

raforkulög.

305. mál
[10:59]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Þetta er sárasaklaus tillaga sem einungis nær fram til ársins 2016. Meiri hlutanum hefði verið í lófa lagið að samþykkja hana. Þá hefði ég getað samþykkt þetta mál algjörlega. Ég tel hins vegar að líflínan milli sjónarmiða nýtingar og verndar liggi ekki um neðri hluta Þjórsár heldur um jaðar miðhálendisins. Þetta tel ég skipta mjög miklu máli, eins og kom fram í ræðu minni við umræðu málsins, að fram fari umræða um það með hvaða hætti á að nálgast miðhálendið. Ég óttast að ef þessi tillaga verður felld blasi við sú ætlan manna að halda áfram undirbúningi að Sprengisandslínu án þess að það hafi nokkru sinni fengið almennilega umræðu í samfélaginu. Ég er á móti því. Þess vegna styð ég þessa tillögu og lýsi eftir skýringum meiri hlutans og þeirra friðarhöfðingja sem hér eru farnir að stýra verkum, hvers vegna í ósköpunum þeir gátu ekki fallist á þetta mál. Þá væri hér algjör sátt. En kannski vilja menn frekar ófriðinn (Forseti hringir.) en friðinn ef það er í boði.