144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[16:03]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Við erum sammála um margt í þessu máli.

Annað sem mig langaði að velta upp er frumvarp í velferðarnefnd þingsins sem heitir lyfjagát. Ég er að velta fyrir mér hvernig þessi frumvörp geta spilað saman eða afleiðingar þeirra. Markmiðið með lyfjagátarfrumvarpinu er að Lyfjastofnun hafi aukna heimild til að fylgjast með aukaverkunum lyfja og skrá og hafa ákveðið eftirlit með markaðsleyfishöfum lyfjanna. Telur hv. þingmaður að það frumvarp, ef það yrði að lögum, gæti aukið vitundarvakningu gagnvart aukaverkunum lyfja hjá almenningi ef meira utanumhald væri um þá skráningu? Maður er líka að hugsa í þessu samhengi um lýðheilsu fólks. En auðvitað, eins og þingmaðurinn benti á áðan, er fólk mjög meðvitað, eða flestallir, um heilsu sína. Það er ekki erfitt miðað við þá tækni sem við höfum í dag að leita sér lyfja. En telur hún að frumvarp um lyfjagát gæti verið til bóta?