144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[16:37]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Hv. þingmaður svaraði ágætlega og sér í lagi því sem sneri að útskýringu á fyrirvara og svo í framhaldi af því staðhæfingu í umsögn embættis landlæknis og gagnvart lýðheilsusjónarmiði. Hv. þingmaður benti með réttu á að frumvarpið snýr einkum að tveimur atriðum. Hið fyrra að það bann verði afnumið og sú mismunun sem í því felst að banna auglýsingar í sjónvarpi gagnvart öðrum miðlum. Ég er sammála hv. þingmönnum sem hér hafa rætt um það mál að auðvitað er ekki í lagi að mismuna miðlum í þessu sambandi, enda er það samdóma álit bæði nefndarinnar og þeirra sem rætt hafa hér um málið. Hins vegar er það sem kemur fram í fyrirvara hv. þingmanns, þ.e. sem viðkemur upplýsingagjöfinni, þá erum við ekki að tala um lausasölulyf. Það er gerð ágætisgrein fyrir því í nefndarálitinu að það er gagnvart sérfræðingum.

Svo ég haldi áfram með staðhæfingu landlæknis og viðbótum í nefndarálitinu þegar embætti landlæknis vísaði til þess að í lagafrumvarpinu væru rökin léttvæg gagnvart lýðheilsusjónarmiðum. Telur hv. þingmaður að í umfjöllun nefndarinnar og í nefndarálitinu hafi verið nægjanlega bætt úr því?