145. löggjafarþing — 114. fundur,  22. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[22:12]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil sérstaklega taka undir lokaorð hv. þingmanns. Í því efni erum við, merkisberar Jónasar frá Hriflu, algjörlega sammála.

Út af orðum hv. þingmanns um hugsanlegt fall íslensku krónunnar tel ég nú engin efni standa til þess og allra síst á meðan allar hlöður Seðlabankans eru fylltar upp í rjáfur af gjaldeyri. Ég tel að við séum ákaflega vel bólstruð til að takast á við hvað eina í þessum efnum.

En ég kem aðallega hér upp til þess að taka undir með hv. þingmanni varðandi það að Seðlabankanum ber að nota 14. gr. til þess að upplýsa um eignarhald í gegnum nafnlaus aflandsfélög í skattaparadísum.

Hv. þingmaður sagði þó að það væru ákveðnar skorður sem nefndin hefði komist að raun um að væri ekki hægt að fjarlægja. En það er samt sem áður þannig, og ég vek eftirtekt hv. þingmanns á því, að það segir bókstaflega í þessu ákvæði sem hv. þingmaður nefndi, með leyfi hæstv. forseta:

„Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til að veita upplýsingar og aðgang að gögnum.“

Jafnframt kom upp í máli hv. þingmanns að það gæti verið erfitt að rekja sig í gegnum langa leggi fyrirtækjaruna, það sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir kallaði spagettífélög fyrr í umræðunni. Og ég tek alveg undir með honum um það, það er erfitt. Þá vek ég eftirtekt hv. þingmanns á því að þessi grein segir bókstaflega að Seðlabankinn geti óskað eftir upplýsingum tiltekins aðila eða krafið hann um upplýsingar um aðra aðila sem varðar eftirlit Seðlabankans.

Mér finnst sem þarna sé (Forseti hringir.) verið að búa til ansi ríkar og góðar heimildir. Einhvern tíma hefði maður kannski reist brúnir yfir því. En þegar aðrir eins menn (Forseti hringir.) og hv. þingmenn Helgi Hrafn Gunnarsson og Brynjar Níelsson, helstu sérfræðingar þingsins um stjórnarskrárbundna persónuvernd, (Forseti hringir.) segja að það sé í lagi þá segi ég að þetta sé í lagi.