149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

fullgilding samnings um að koma í veg fyrir stjórnlausar úthafsveiðar í miðhluta Norður-Íshafsins.

773. mál
[11:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Það er rétt, og þess vegna spyr ég, að ég var fjarverandi ásamt nokkrum öðrum þingmönnum þegar málið var afgreitt úr nefndinni. Það sem ég er að fiska eftir, ef ég má nota það orð, er þetta: Hvaða tölur voru nefndar þegar menn töluðu um varúðarnálgun? Erum við að tala um að stofninn hafi verið metinn upp á nokkrar milljónir tonna og að menn hafi ákveðið að taka 40% af honum í staðinn fyrir 60%? Ég er að spá í samhengið, út á hvað gengur varúðarnálgun í rauninni? Hvaða viðmið eru sett?

Kannski skiptir þetta ekki öllu máli, virðulegi forseti, en ég tel samt nauðsynlegt fyrir okkur að hafa einhverja mynd af þessu. Ég geri ráð fyrir að þetta hafi verið rætt í nefndinni. Ef ekki, þá nær það bara ekki lengra en þetta er pælingin: Um hvaða magn erum við að ræða í varúð, ráðgjöf og öllu slíku?