149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

umferðarlög.

219. mál
[12:42]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að koma inn á annað mikilvægt atriði og líka fyrir þakkir í minn garð og gott samstarf í nefndinni. Samstarfið í nefndinni um umferðarlögin gekk mjög vel, annað en þingstörfin hér undanfarið.

Hvað varðar bílastæðagjöldin og það að erfiðlega hafi gengið að innheimta þau er kannski ein ástæðan fyrir því að hin hlutlæga ábyrgð hefur ekki náð yfir þjóðgarða. En eftir gott samtal við ferðaþjónustuna og við bílaleigurnar og milli þjóðgarðanna og annað þá hillir undir samkomulag þarna. Mér finnst mjög mikilvægt, eins og ég kom inn á áðan, að hin hlutlæga ábyrgð sé virk þar sem þetta tengist notkun bílsins. Það skiptir miklu máli af því að þjóðgarðarnir og við öll erum með sama markmið, þ.e. að búa til betri þjónustu fyrir gesti okkar þannig að (Forseti hringir.) upplifunin verði betri og skipulagið gangi betur og okkur gangi betur að vernda íslenska (Forseti hringir.) náttúru og menningarstaði. Það gengur vel og ég held að við göngum ekki (Forseti hringir.) á persónuverndina hér.