149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[15:41]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það sem ég hef mestar athugasemdir við í þessu er það sem kemur fram hjá fagaðilum. Mér finnst mjög mikilvægt að hlusta á það sem fagaðilarnir segja. Við sjáum þarna gagnrýni frá læknafélögunum og Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga. Það hljótum við að hlusta á. Mér finnst sýnu alvarlegast að þessir aðilar tala allir um skort á samráði. Vissulega verður nánari útfærsla í þeirri aðgerðaáætlun sem hv. þingmaður nefndi.

Þá er mikilvægt í mínum huga að bætt sé úr því að leita samráðs. Það eru ágætisþættir í þessari heilbrigðisstefnu, hún er ekki alslæm, ég segi það ekki, en fólk sem er í forgrunni er mjög mikilvægt vegna að það er sá þáttur sem skiptir mestu máli, þ.e. fólkið sem sinnir þessum störfum og síðan að sjúklingarnir fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á og að hún sé innt af hendi af besta fáanlega starfsfólkinu.

En engu að síður hlýtur hv. þingmaður að vera sammála mér í því að við verðum að hlusta á þá gagnrýni sem komið hefur fram frá aðilum sem við tökum töluvert mikið mark á, frá Læknafélagi Reykjavíkur og Læknafélagi Íslands og Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga. Það eru þeir þættir sem mér finnast mikilvægastir í þessu, að við hlustum á raddir þeirra.