151. löggjafarþing — 114. fundur,  12. júní 2021.

brottfall laga um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis.

558. mál
[22:35]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er samkomulag um að þessu máli verði vísað til ríkisstjórnar, eða það er samkomulag um að þetta mál verði afgreitt en meiri hlutinn ákveður að afgreiða það með frávísun. En þetta blessaða nefndarálit er lögskýringargagn. Þetta blessaða nefndarálit á að gefa ríkisstjórninni einhverja leiðsögn um það hvað það er sem kemur í framhaldinu. Og jú, ég veit vel hvað stendur í stefnuskrá Vinstri grænna en af þeim fimm þingmönnum sem standa að þessu nefndaráliti er bara einn úr þeirri hreyfingu. Svör hv. þingmanns gáfu ekki til kynna að það væri vilji stjórnarliða, vilji ríkisstjórnarinnar, vilji þess meiri hluta sem stendur að þessu nefndaráliti, að banna olíuleit eða fara fram á það að ríkisstjórnin vinni í átt að því að banna olíuleit í framhaldi af þessari frávísun.

Mig langar að spyrja þingmanninn hvort það sé réttur skilningur minn að í þessari frávísun felist engin leiðsögn til ríkisstjórnarinnar um það að út úr þessu ferli eigi að koma bann við olíuleit.