151. löggjafarþing — 114. fundur,  12. júní 2021.

brottfall laga um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis.

558. mál
[22:41]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður er hérna á frávísunartillögu í þessu máli og ég er að spyrja hv. þingmann út í afstöðu hennar og hvers vegna hún gat ekki staðið með sannfæringu sinni. Hvers vegna er nafn hv. þingmanns á þessu nefndaráliti með frávísunartillögu? Ég hlýt að geta spurt að því þótt ég þurfi auðvitað að sætta mig við það sem meiri hlutinn í þessum sal kemst að niðurstöðu um. Ég er fullmeðvituð um hvernig þingræðið virkar og atkvæðagreiðslur hér o.s.frv. Það má auðvitað vona að samviskan grípi þingmenn Vinstri grænna og þau greiði atkvæði með eigin sannfæringu og banni olíuleit á Íslandi. Við erum einfaldlega að spyrja hvers vegna hv. þingmenn bregða á það ráð að vinna gegn yfirlýstum markmiðum sínum og gegn yfirlýstum stefnumálum sínum. Hér er mjög einföld breyting sem verið er að leggja til. Hvers vegna er Vinstrihreyfingin – grænt framboð ekki samþykk því að banna olíuleit? Hvers vegna er verið að vísa banninu út í hafsauga? Hvers vegna liggur ekki fyrir hvað verður um bann við olíuleit? Og að lokum: Hvernig samræmist það að banna ekki olíuleit á Íslandi markmiðum ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutlaust Ísland eigi síðar en árið 2040? Hvernig gengur þetta tvennt upp saman; leyfi fyrir olíuleit og kolefnishlutlaust Ísland? Hvers konar bull er þetta, herra forseti?