151. löggjafarþing — 114. fundur,  12. júní 2021.

brottfall laga um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis.

558. mál
[22:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get alveg tekið undir síðustu orð hv. þingmanns: Hvers konar bull er þetta? Eru Píratar með þær fréttir að verið sé að gefa út einhver vinnsluleyfi fyrir olíu hér við land? (ÞSÆ: Af hverju bannið þið hana ekki?) Er það eitthvað sem er í gangi? Stendur það til? (Gripið fram í.) Nei, það stendur ekki til (Gripið fram í.) og þá getur það varla verið það sem ríður á í dag að gera, því að það stendur ekki til og er ekki stefnt að því. Þetta mál er þannig vaxið að það er hluti af þinglokasamningum og því verður vísað til ríkisstjórnarinnar. Vilji Vinstri grænna, svo að ég segi það nú í fjórða skipti, er til þess að ekki verði hafin olíuleit við Ísland. Það er alveg skýrt. Síðan kemur bara í ljós hvaða flokkar koma til með að vera í næstu ríkisstjórn, og þeir munu fjalla um málið og vonandi sýna menn þá skynsemi að banna það til framtíðar að vinna og leita að olíu eða gasi eða hverju sem er. En þetta er ekki eitthvað sem ég held að við þurfum að hafa miklar áhyggjur af. Við ættum frekar að hafa áhyggjur af einhverju öðru í samfélagi okkar.