151. löggjafarþing — 114. fundur,  13. júní 2021.

brottfall laga um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis.

558. mál
[00:36]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við umræðu málsins sagði hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir að sú afgreiðsla að vísa til ríkisstjórnarinnar með frávísunartillögu hefði verið samþykkt af mér sjálfum. Í ljósi þess að hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir hefur með þessu enn einu sinni valið að segja ósatt um Pírata þá verð ég að taka það skýrt fram að þetta er ekki satt. Ég samþykkti aldrei að vísa þessu máli frá heldur var það alltaf skýr afstaða Pírata að fá málið í atkvæðagreiðslu. Hins vegar komu skýr skilaboð á móti úr herbúðum stjórnarliða um að það vildu þau ekki, væntanlega vegna þess að fólk treystir sér ekki til að sýna sína réttu afstöðu hér í þingsal. Það er nefnilega þægilegt að fela sig á bak við frávísunartillögu frekar en að sýna hvað maður stendur fyrir. En ekki kenna mér um það þegar ég hef ekki samþykkt það.