Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2023.

landbúnaðarstefna til ársins 2040.

914. mál
[17:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég vil ekki segja að því miður þurfi landbúnaðurinn að breytast vegna loftslagsmála. Ég held að það sé bara mjög gott af því að aðlögunarhæfni bænda er mjög mikil og hefur þurft að vera í gegnum tíðina. Ég tel að þeir hafi fyrir löngu hafið þá vegferð að taka þátt í loftslagsaðgerðum og eru með samninga við ríkið um slík verkefni. Þannig að bændur taka þátt í því að vinna margs konar verkefni tengd loftslagsmálum. Ég verð nú að benda fólki á að kynna sér frábært bú í Vopnafirði, hvar ungt fólk er í kolefnisplús, ef við getum orðað það svo. Þannig að þetta er hægt. Þetta kostar auðvitað gríðarlega yfirlegu og alls konar útfærslur og annað slíkt og eflaust ekki hægt hjá öllum strax. Þetta tekur allt tíma. En ég held að bændur séu mjög mikið með okkur í liði í að vinna að þessum markmiðum. Ég hef líka miklar áhyggjur af því að við verðum ekki búin að ná þessum markmiðum, maður er alveg raunsær með það. En við getum samt ekki gefist upp. Við þurfum auðvitað að leggja okkur fram og hafa trú á því að við getum gert þetta, að tækninni fleygi líka þannig fram að við getum gripið til aðgerða sem kannski verða til þess að hlutirnir geta gengið hraðar fyrir sig.

Varðandi fjármunina þá er það sannarlega rétt hjá hv. þingmanni að það eru sértækar aðgerðir þarna inni sem er gert ráð fyrir að verði í ákveðinn tíma. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt. Það getur vel verið að þegar kemur að því að þessu tilraunatímabili ljúki þá þurfum við að taka það upp og segja: Ókei, við viljum halda þessu áfram af því að þetta er verkefni sem er gott — eða við segjum að það gangi ekki upp. Það er eitthvað sem kemur á hverjum tíma. En varðandi framlög til aðgerðaáætlunar sem við eigum eftir að fá fram, sannarlega, í hvaða formi við ætlum að forgangsraða, (Forseti hringir.) þá tel ég að það verði fjármagnað, hvort sem ráðherra gerir það innan síns ramma eða hvort við þurfum á einhverjum tímapunkti að taka utan um það.