Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2023.

landbúnaðarstefna til ársins 2040.

914. mál
[17:37]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Frú forseti. Landbúnaður er grundvöllur atvinnusköpunar og byggðafestu víða í hinum dreifðu byggðum ásamt því að spila lykilhlutverk í fæðuöryggi þjóðarinnar. Á sama tíma hefur landbúnaðurinn verið að glíma við margvíslegar áskoranir undanfarin ár og áratugi sem taka þarf tillit til. Rekstrarumhverfið er ekki eins og best verður á kosið og því miður er afkoma bænda enn þá arfaslök. Greinin á því töluvert mikið undir stefnu stjórnvalda og það skiptir máli hvernig haldið er á spilunum, það sé vandað til verka. Sú stefna sem hér er til grundvallar miðar að því í stórum dráttum, að ég tel. Vissulega er þetta almenn stefnumörkun til 17 ára. Það nær yfir alla vega fjögur kjörtímabil en við verðum að hafa í huga að það skiptir greinina og bændur miklu máli að það sé skýr sýn af hálfu stjórnvalda hvert skal stefna og hvernig, þannig að það sé festa og fyrirsjáanleiki í þessari grein.

Heilt yfir er það sem ég er ánægður með í þessari þingsályktunartillögu að þetta er almenn stefnumörkun sem tekur af öll tvímæli um að styðja við íslenskan landbúnað. Þetta er mikilvægt atriði. Það skiptir máli. En það skiptir líka máli hvernig það er útfært. Það skiptir máli að það sé virkt og lifandi samtal við bændur og aðra hagaðila sem koma að þessu máli. Ég tel að ef við berum gæfu til að tryggja íslenskum landbúnaði hagstætt og gott rekstrarumhverfi sem bætir afkomu bænda til muna þá getum við séð sömu þróun í landbúnaði og við höfum séð undanfarna áratugi eiga sér stað í sjávarútvegi. Við getum séð fyrir okkur sviðsmynd þar sem koma fram stærri og öflugri fyrirtæki, stærri og öflugri rekstraraðilar sem geta byggt á útflutningi ásamt því að treysta stöðu sína á innlendum markaði og byggt á sérstöðu íslensks landbúnaðar. Það eru tækifæri til nýsköpunar, betri nýtingu á hráefni og það eru frekari tækifæri til atvinnuuppbyggingar sem byggir á þekkingu og reynslu í landbúnaðinum.

Frú forseti. Það er í sjálfu sér erfitt að sjá fyrir nákvæmlega hvernig þetta mun gerast. Það er ekki endilega hlutverk okkar stjórnmálamanna að sjá það fyrir. Það er erfitt að sjá hvernig starfsemi, hvaða fyrirtæki það eru sem munu ná bestum árangri í þessum geira. Ég rifja það stundum upp sem mér var einu sinni kennt um Sviss og Svisslendinga, af hverju þeir eru svona umfangsmiklir í lyfjaiðnaði. Það má rekja til þess að í Sviss byggðu þeir á mikilli þekkingu á efnaiðnaði sem var til staðar í landinu allt frá 18. og 19. öld þar sem Svisslendingar voru framarlega í að lita m.a. ull og klæði. Þetta segir okkur með öðrum orðum að það þarf að hlúa að frumframleiðslunni. Það er á þeim grunni sem nýsköpun og aðrar tækniframfarir geta orðið. Ég tel að tækifærin séu til staðar svo lengi sem þessi grundvöllur, þessi rekstrargrundvöllur sé rétt lagður. Í þeim aðstæðum sem uppi eru í dag, svo sem möguleikanum á því að rekja uppruna vöru, hreinleika hennar og öryggi, þá felst í þessu samkeppnisforskot sem getur gegnt lykilhlutverki fyrir framþróun í íslenskum landbúnaði.

Við skulum líka átta okkur á því þegar við ræðum um rekstrarumhverfi greinarinnar að umhverfið í dag er því miður með þeim hætti að greininni er gert erfitt að ná fram stærðarhagkvæmni og bæta þannig rekstrarstöðu sína. Það getur verið erfitt að fá fjármagn til að ráðast í nauðsynlegar endurbætur á framleiðslutækjum og öðrum búnaði. Við skulum líka átta okkur á því að löggjöfin býður ekki upp á það sama svigrúm fyrir íslenskan landbúnað til hagræðingar eða samstarfs eins og ríkir í nágrannalöndunum okkar sem starfa eftir ESB-löggjöfinni.

Heilt yfir, frú forseti: Byggðir landsins þar sem bændur eru í framlínunni eiga að geta og þurfa að geta nýtt sér þessa möguleika á sínum forsendum. Það er ekki svo að okkur vanti dugandi og áræðið kunnáttufólk, sá hópur víða um land er stór, en það verður að vera hægt að nýta tækifærin. Til þess þurfa nauðsynlegir innviðir að vera til staðar, svo sem samgöngur, fjarskipti, rafmagn og það þarf að vera aðgengi að fjármagni til nýsköpunar og framþróunar. En fyrst og fremst, frú forseti, þarf að ríkja stöðugleiki og sátt við rekstrarumhverfið. Sé þetta til staðar eru sóknarfærin um land allt.

Frú forseti. Nefndarálitið sem hér liggur fyrir frá meiri hluta atvinnuveganefndar og ég styð tekur á ýmsum þáttum tillögunnar og það er vel. Það bárust allmargar umsagnir og margvísleg sjónarmið voru reifuð og ég ætla í þessum hluta ræðu minnar rétt að tæpa á nokkrum atriðum sem ég tel að sé gagnlegt að hafa til hliðsjónar þegar við rýnum þessa tillögu og hvernig eftirfylgni hennar verður af hálfu stjórnvalda.

Fyrst er það að segja um markmið og tilgang stefnunnar eins og hún birtist okkur í þingsályktunartillögunni að það er í sjálfu sér allt gott og blessað. Ég er þá að vísa til markmiða um sjálfbærni í nýtingu náttúruauðlinda, landnýtingu sem taki mið af ástandi og getu vistkerfa, verndun og eflingu líffræðilegrar fjölbreytni, framleiðslu heilnæmrar afurða og fæðuöryggis svo fátt eitt sé nefnt. En það er algerlega tómt tal að ætla að stefna að þessum markmiðum eða ná þeim ef rekstrargrundvöllur greinarinnar er ekki til staðar, ef afkoma bænda er ekki þannig að þeir sjái hag í því að leggja á sig, taka áhættu og innleiða nýja tækni. Ef þessi grundvöllur er ekki til staðar þá mun ekkert af þessum göfugu og fínu markmiðum nást. Ég tel málið vera svo einfalt.

Það er líka vert að nefna það að í þessari stefnu sem birtist í þingsályktunartillögunni er að einhverju leyti vikið frá eða það er ekki sami tónn og við sjáum í búvörulögum sem er sú stefna sem stjórnvöld leggja til grundvallar í samningum sínum við bændur. Það ákvæði búvörulaga sem ég er að tala um er eftirfarandi, með leyfi forseta, „að stuðla að framförum og aukinni hagkvæmni í búvöruframleiðslu og vinnslu og sölu búvara til hagsbóta fyrir framleiðendur og neytendur“. Ég átta mig vel á því að það er verið að slá nýjan tón í þessari þingsályktunartillögu, tón sem byggir á góðri skýrslu sem ber heitið Ræktum Ísland og þáverandi hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra lét gera. Það er nú ekki, eins og kemur fram í álitinu, heildstæð landbúnaðarstefna heldur miklu frekar drög að landbúnaðarstefnu enda er sú stefna sem birtist í þessari þingsályktunartillögu að mörgu leyti byggð á þessari skýrslu. Það er margt jákvætt þar að finna eins og í þessari þingsályktunartillögu en ég nefni það bara að þó að það sé verið að leggja áherslu á sjálfbærni, aukna landnýtingu og annað, þá verður ekki hægt að skilja frá mikilvægi rekstrarhæfis og afkomu bænda. Það er algjört lykilatriði. Þess vegna vil ég árétta þetta hér þannig að við lestur þessarar þingsályktunartillögu og framfylgni stjórnvalda á henni sé þessu atriði haldið til haga.

Annað sem var töluvert til umfjöllunar í nefndinni sneri að loftslagsbókhaldi landbúnaðarins og kemur m.a. fram í umsögn og kynningu Bændasamtaka Íslands. Meiri hluti hv. atvinnuveganefndar kemur inn á þetta í álitinu og við segjum á þá leið að hraða þurfi vinnu vegna reiknaðrar losunar frá búfjárhaldi og ræktunarlands, frú forseti. Hér er mildilega tekið til orða, vissulega. En minn skilningur er sá, eftir alla umfjöllunina í nefndinni, að ef það á að nást fram kolefnishlutleysi í landbúnaði eftir einhver ár þá er alveg augljóst að við þurfum að leggja grunninn rétt. Upphafspunkturinn í þeirri vinnu þarf að vera rétt lagður frá byrjun. Það þarf sérstakt bókhald og sértækt bókhald um losun í landbúnaði. Dæmi um þetta er, eins og var sagt í umfjöllun nefndarinnar, að losun í landbúnaði samkvæmt núverandi kerfi, því ófullkomna skráningarkerfi, tekur eingöngu til, eins og ég skil þetta, búfénaðar, áburðar og landnýtingar. Ef bóndi fer í orkuskipti og skiptir út olíutraktor fyrir rafmagnstraktor, mjög jákvætt mál og gott, þá telur það ekkert í loftslagsbókhaldi landbúnaðarins. Það fellur undir einhvern annan flokk, vinnuvélar og eitthvað slíkt. Með þessu er ég að árétta, frú forseti, mikilvægi þess stjórnvöld klári þá vinnu að ná utan um hvernig við horfum á losun í landbúnaði þannig að það myndist ekki í upphafi rangir hvatar eða einhver vitleysa sem leiðir okkur út í skurð.

Að síðustu, frú forseti, vil ég koma aðeins inn á þá breytingartillögu sem er að finna í nefndarálitinu og meiri hluti atvinnuveganefndar leggur til, breytingu á 10. lið stefnunnar er varðar stuðningskerfi landbúnaðarins. Ég tel það skynsamlegt. í ljósi þess að við erum með stefnu til 17 ára, að binda ekki hendur stjórnvalda um of og að orðalagið undir þessum kafla sé skýrt um þau markmið og þær áherslur sem stjórnvöld vilja ná fram en það sé ekki fyrir fram, án samtals og samvinnu við bændur og aðra hagaðila, fastmótað eða það sett niður hver kröfugerð ríkisins eigi að vera þegar gengið er til endurnýjunar á búvörusamningi. Það er málsgrein í nefndarálitinu sem útskýrir þetta og ég vitna til, með leyfi, frú forseti:

„Að sama skapi þarf stuðningur við landbúnað að skapa stöðugan og traustan grundvöll fyrir innlenda matvælaframleiðslu og fæðuöryggi. Einnig tekur meiri hlutinn undir þau sjónarmið sem matvælaráðherra hefur haft uppi í tengslum við endurskoðun búvörusamninga, sem er að gera ekki grundvallarbreytingar á samningunum.“

Hvað þýðir þetta, frú forseti? Minn skilningur er sá að við skulum fara varlega. Við skulum fara varlega ef einhver hefur þær fyrirætlanir að kollvarpa í einu vetfangi stuðningskerfi því sem er við lýði í dag. Það er nefnilega þannig að þegar var verið að gera búvörusamninga fyrir sjö, átta árum síðan, 2016, þá fólust í þeim samningum töluverð nýmæli sem sneru að stuðningskerfi við mjólkurframleiðendur annars vegar og hins vegar við sauðfjárbændur, að afnema ætti kvótakerfið í mjólkurframleiðslu og trappa niður með öllu greiðslumarkið í sauðfjárræktinni. En stuttu seinna, eftir þá samninga, þá sáu bændur að sér, eins og ég skil þetta, og sneru algerlega við blaðinu. Kúabændur hafa horfið frá því og ályktað um að ná fram breytingum á samningunum með endurskoðun þeirra og hverfa frá því að kollvarpa stuðningskerfinu í mjólkuriðnaðinum. Það sama er nú upp á teningnum í sauðfjárræktinni, hjá sauðfjárbændum sem hafa að undanförnu, eins og ég skil þetta, sammælst um að skora á ráðherra, nú síðast fyrir síðustu áramót, að hætta niðurtröppun á greiðslumarki í búvörusamningunum. Þetta er mikilvægt, frú forseti, af því að við erum með þessari landbúnaðarstefnu fyrst og fremst að treysta á dugnað og áræðni bænda. Það eru þeir sem spila lykilhlutverk í því að landbúnaðurinn vaxi og dafni íslenskri þjóð til heilla.