Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2023.

landbúnaðarstefna til ársins 2040.

914. mál
[17:54]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf):

Frú forseti. Við erum hér að ræða landbúnaðarstefnu til ársins 2040 og þetta er víst fyrsta slíka þingsályktunartillagan um þessa öldnu atvinnugrein sem hefur fylgt þjóðinni frá upphafi. Það er ýmislegt í þessari þingsályktunartillögu sem er vert að ræða og þá ekki hvað síst markmiðin, því að þau eru háleit, virkilega háleit. Fyrsta markmiðið er að Ísland verði í fremstu röð ríkja í framleiðslu heilnæmra landbúnaðarafurða og síðan að nýting náttúruauðlinda í landbúnaði verði ávallt sjálfbær, fæðuöryggi verði ávallt tryggt og margt fleira. Mjög falleg og göfug markmið í fjölmörgum liðum sem ég ætla ekki að telja upp en framsögumaður fór ágætlega yfir hér fyrr í umræðunni. En það sem skortir á, frú forseti, eru leiðir að markmiðum. Það er engin aðgerðaáætlun sem liggur fyrir. Það er mjög sérstakt að vera hér að ræða áætlun einn og hálfan áratug og jafnvel lengra fram í tímann án þess að boða einhverjar aðgerðir. Hvað ætla menn að gera á morgun eða hinn og hvað þá á næsta ári? Það er ekkert sem liggur fyrir annað en bara mjög háleit markmið. Það eru mjög háleit markmið hvað varðar kolefnisjöfnun, það á að verða algerlega kolefnisjafnað 2040, en það er ekkert sagt um hvert markmiðið er 2025 í jöfnun á kolefni. Það á að gera þetta kolefnishlutlaust 2040 en hvað verður á næsta ári? Þannig að það sem skortir verulega á hér eru mælanleg markmið. Við höfum mjög háleit markmið en ekki mælanleg markmið sem eru nær í tíma. Hér er svolítið verið með fagurgala án þess að vera með raunverulega áætlun til umræðu.

Það er ekki bara sá sem hér stendur og við í Flokki fólksins sem höfum gert athugasemd við þetta heldur hafa þær raddir einnig komið úr landbúnaðarsamfélaginu. Húnaþing vestra bendir á í umsögn að það skorti verulega á að það sé sagt hvaða leiðir menn ætla að fara og sömuleiðis frá mínu ágæta sveitarfélagi, Sveitarfélaginu Skagafirði, kemur það skýrt fram að það vanti hvernig eigi að framkvæma þessa göfugu stefnu sem hér er. Það vantar sem sagt skýrari markmið, hvað á að gera núna á næsta ári og þarnæsta en það vantar ekki loforðin um hvað eigi að gera 2040.

Það er mjög ólíklegt að þeir sem leggja þetta fram, hvort sem það er hæstv. matvælaráðherra eða hinir ágætu þingmenn í atvinnuveganefnd, þurfi að standa reikningsskil á þessu plaggi. Þess vegna væri, held ég, miklu gagnlegra, frú forseti, að við hefðum hér einhverjar stikur til að fikra okkur eftir til að komast að þessu háleita markmiði um að Ísland verði í fremstu röð ríkja í framleiðslu heilnæmra landbúnaðarvara, að við höfum einhverjar stikur nær í tímanum. Þegar maður hefur þetta fyrir framan sig en ekki neinar vörður á þessum tímaás þá boðar það ekkert sérstaklega gott.

Það komu fjölmargar athugasemdir hvað þetta varðar um þetta ágæta mál og við verðum að muna eftir því að þetta er fyrsta þingsályktunartillagan sem flutt er um þessa atvinnugrein sem skiptir afar miklu máli, eins og hefur verið talað um hvað varðar byggðasjónarmið, atvinnuöryggi þjóðarinnar og svo má lengi telja og einnig sjálfsímynd þjóðarinnar, tel ég vera. Hvað er Ísland án þess að það séu réttir, það sé smalamennska? Þetta eru hluti af sjálfsmyndinni, sjálfsvirðingu og menningarverðmætum landsins.

Það eru fleiri þættir sem væri þarft að ræða hér, einnig út frá ímynd landbúnaðarins. Við í Flokki fólksins við höfum lagt áherslu á dýravelferð og kannski hefði sá kafli mátt vera veglegri í þessari þingsályktunartillögu og einhverjar vörður á leiðinni þangað, hvert við viljum stefna hvað það varðar. Það er því miður ákveðið áhugaleysi í atvinnuveganefnd að fá þann viðkvæma málaflokk í umræðuna og færa hann til betri vegar. Það er ekki hægt að draga úr því.

Hér var rætt af þingmönnum að það sem væri gott við þessa stefnu væri fyrirsjáanleikinn. Ég get ekki tekið undir það að þessi stefna boði fyrirsjáanleika. Það fylgja stefnunni engir fjármunir. Það fylgja henni engar aðgerðir. Auðvitað tekur maður undir það þegar hv. þm. Teitur Björn Einarsson nefnir það hér að menn eigi að varast bókhaldsbrellur í loftslagsmálunum og kolefnishlutleysi og öllum þessum útreikningum og sérstaklega tel ég það vera varhugavert þegar kemur að málum sem koma frá hæstv. matvælaráðherra. Nú ætla ég ekki að segja að hún hafi ekki lagt fram frumvörp af góðum hug, t.d. hvað varðar aflvísinn þar sem hún leyfði ótakmarkað afl við togveiðar upp í grunnsævi. Hv. þingmaður varaði þarna við traktorum og við deilum þeirri skoðun hvað varðar ýmis mál sem hafa komið úr matvælaráðuneytinu að þar skorti uppi á ýmislegt og kappið hafi borið skynsemina ofurliði, alla vega í málum sem snúa að stjórn fiskveiða. Svo var ýmislegt talið upp hvað varðar bókhaldsbrellurnar sem eru svolítið skrýtnar í umræðunni um þessa kolefnisútreikninga alla sem eru flestu fólki illskiljanlegir.

En það eru fleiri þættir sem er vert að ræða hér og tengsl þessarar landbúnaðarstefnu við önnur frumvörp sem hafa verið lögð hér fram á síðustu dögum. Það er ekki samhljómur í þeim. Við vorum hér á dögunum að samþykkja ný raforkulög þar sem var samþykkt ákvæði um óskilgreindan kostnað á dreifbýlið. Ef einhver í dreifbýlinu ætlar að tengjast inn á raforkukerfið er hægt að leggja á óskilgreindan viðbótarkostnað. Það er alveg ljóst hvað það varðar að það er ekki óskilgreindur viðbótarkostnaður t.d. á bónda sem hyggst fara í orkuskipti, það kom bara skýrt fram í umsögn frá Landsvirkjun og Bændasamtökum Íslands að það gæti augljóslega orðið þrándur í götu þess að orkuskipti næðu fram. Það er þá kannski ekki heldur til að greiða fyrir því að menn nái eitthvað í áttina að þeim háleitu markmiðum sem koma fram í þessari þingsályktunartillögu, þ.e. að landbúnaðurinn verði kolefnishlutlaus árið 2040. Það færi betur á því að menn reyndu að samþætta hlutina hér á hinu háa Alþingi, t.d. breytingar á raforkulögum, landbúnaðarstefnuna, byggðastefnuna og fleiri stefnur. En það fór eins og það fór. Auðvitað vonast maður til þess að menn gæti hófs í þessum viðbótarkostnaði. En það vekur samt undrun að þingmenn landsbyggðarinnar, sem eru í atvinnuveganefnd sem eru margir hverjir velviljaðir landbúnaðinum, skyldu ekki staldra við í því máli, einmitt í ljósi þess að þeir voru að ræða hér landbúnaðarstefnu til ársins 2040 þar sem menn ætla að ná fram gríðarlegum árangri í því að gera landbúnaðinn kolefnishlutlausan, í stað þess að drífa það mál í gegn. Það er auðvitað sérkennilegt. Það verður mögulega aftur tekið, ólíkt ýmsu öðru. Vonandi sjá menn að sér og þeir sem hafa það vald að leggja óskilgreindan kostnað á dreifbýlið muni gæta hófs varðandi þann kostnað allan vegna þess að það er auðvitað vandmeðfarið. Ef einhver ryður brautina með einhverju nýbýli og hefur þar atvinnustarfsemi og þarf að greiða gríðarlega háan viðbótarkostnað, mun hann þá ekki fást greiddar til baka ef fleiri fylgja á eftir? Það eru ýmis svona sjónarmið sem fengust bara ekkert rædd.

Það eru fleiri mál sem landbúnaðarstefnan tengist og við höfum aðeins tæpt á því sem sneri að uppkaupum á ræktarlandi. Það er auðvitað ólíðandi að á annað prósent lands sé komið í eigu eins auðmanns sem hefur yfir því að ráða og getur gert við það sem honum sýnist. Það er auðvitað ekkert í samræmi við matvælaöryggi og allt tal um það. Það er ekki heldur í samræmi við þá ímynd, sjálfsímynd sem Íslendingar vilja hafa að stór hluti lands sé jafnvel í eigu útlenskra auðmanna, Kínverja eða Englendinga. Þetta er eitthvað sem við eigum ekkert að sætta okkur við. Ég skora á menn að skoða það. Það eru miklu fjölmennari þjóðir sem gera miklu strangari kröfur til eigu jarðnæðis og nýtingu þess, og þá er ég að vísa til okkar gömlu herraþjóðar, Dana, sem fara skynsamlega hvað það varðar og einnig eru strangari reglur þar um kaup á fasteignum. Ég er á því að þetta þurfi að fara gaumgæfilega yfir.

Ég ítreka það, frú forseti, að það er auðvitað bagalegt að vera að ræða fyrstu þingsályktunartillöguna um landbúnað án þess að vera með einhverjar aðgerðir. Ég er hissa, ég er undrandi á því að hæstv. matvælaráðherra skuli ekki reyna að einhverju leyti að skreyta umræðuna með einhverjum aðgerðum. En það kemur fram í þessu plaggi að það mun ekki verða lögð ein króna aukalega, alla vega ekki nú um stundir, til að hrinda þessari stefnu í framkvæmd. Það er auðvitað undarlegt en það er nú eins og það er.

Það eru fleiri mál sem ég tel vert að ræða sem snúa þessari stefnu. Málefni sjávarjarða hafa verið til umræðu en sjávarjarðir eru nýttar til dúntekju og fleiri þátta. Það hafa komið fram áhyggjur af breytingum á lögum um hrognkelsaveiðar þar sem verið er að færa fiskinn inn í gjafakvótakerfið, alveg þvert á stefnu matvælaráðherra. Hún virðist vera haldin einhverju kvótaæði þegar kemur að stjórn fiskveiða. Ef hún hefur spurnir af einhverri nýrri fisktegund þá er eins og hún vilji umsvifalaust færa hana í kvóta. Nú er komið að grásleppunni hjá henni og þar eru engar stærðartakmarkanir á skipum í því frumvarpi sem liggur hér fyrir og hún vill hleypa þess vegna 50, 60 tonna skipi í grásleppuveiðar með fjölda neta. Það er kannski í takt við önnur frumvörp sem ég tel vera lögð fram af óvitaskap hæstv. ráðherra, algjörum óvitaskap. Til dæmis vil ég nefna þetta kapp hennar í loftslagsmálum, að hleypa aflmiklum skipum upp í fjörur landsmanna, það er eitthvað sem ég held að eigendur sjávarjarða ættu að staldra við og skoða.

Eins og ég segi þá hefði maður auðvitað viljað hafa hér aðgerðaáætlun, ekki hvað síst ef menn fara af stað með háleit markmið eins og að íslenskur landbúnaður verði kolefnishlutlaus árið 2040, þá hefði verið sjálfsagt mál að menn hefðu haft einhverja stiku til að miða sig við, vita hvar menn ætla að vera árið 2024 eða 2025. En það er ekki að sjá í þessari áætlun og það er miður, frú forseti.

Svo ég dragi þetta saman í lokin þá er hér um að ræða fallega áætlun um landbúnaðarmál, háleit markmið, en það eru engar boðaðar aðgerðir þannig að þegar öllu er á botninn hvolft er þetta frekar ódýrt, alla vega á það ekki að kosta eina krónu ef hægt er að taka mark á því sem stendur hér í þingsályktunartillögunni.