140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:20]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hans í umræðuna. Hann gerði að umtalsefni upphaf kvótakerfisins og þær meginhugmyndir sem lágu kerfinu til grundvallar í upphafi og tók fram, ef ég skildi hann rétt, að hann teldi að kerfið hefði fyrst og fremst verið mótað eftir höfði og hugmyndum Landssambands íslenskra útvegsmanna í árdaga þess.

Mig langar til að biðja þingmanninn um að gera aðeins betur grein fyrir þeim sjónarmiðum sem hann færir hér inn í umræðuna. Er þingmaðurinn að segja að það hafi verið gerð einhver grundvallarmistök þegar kvótakerfinu var komið á? Á þeim tíma lá fyrir og var óumdeilt að gríðarlega mikil offjárfesting var í greininni og ofveiði á íslensku stofnunum. Hvaða mistök voru það þá, ef þingmaðurinn er að halda því fram, eins og mér heyrist, sem menn gerðu í upphafi? Ekki síst er mikilvægt að fá þetta fram vegna þess að ég tel að það hafi verið kvótakerfið og þá ekki síst frjálsa framsalið sem var innleitt hér með atkvæðum hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur og hæstv. sjávarútvegsráðherra Steingríms J. Sigfússonar, sem var grundvöllur að þeirri hagræðingu sem átti sér stað í greininni upp úr árinu 1990. Gögn sýna að það var fyrst þegar frjálsa framsalið komst á sem einhver afgangur varð af útgerð á Íslandi síðustu áratugi.

Veiðigjaldið sem við ræðum hér er síðan forsenda þess að ríkið geti gert eitthvert tilkall til þess að fá hlutdeild í þeim afgangi. Mér finnst því skorta á skýringar frá hv. þingmanni hvað það sé í eðli kvótakerfisins sem hann segir að hafi brugðist frá upphafi, það hafi verið rangt (Forseti hringir.) gefið eða lagt af stað með röngum forsendum, þegar við sjáum (Forseti hringir.) árangurinn af kerfinu í dag.