149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[11:48]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við greiðum senn atkvæði um löngu tímabæra og eftirlýsta stefnu í heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn, fyrir allt Ísland. Væntingar voru um að þetta gæti orðið tímamótaskjal, greinargóður og glöggur vegvísir til náinnar framtíðar eftir ítarlega umfjöllun í þinginu. Því er reyndar ekki að heilsa. Hér er um að ræða almennt orðaða yfirlýsingu og óljóst vísbendingaskjal sem erfitt er að gera ágreining um. Samfylkingin mun því styðja það plagg sem hér er kynnt þótt svo hátti til.

Inn í þessa svokölluðu heilbrigðisstefnu vantar veigamikla þætti. Nefna má nýsköpun og algjöra nauðsyn og nýjar áherslur í öldrunarþjónustu sem blasa við, sömuleiðis endurhæfingu og heilsueflingu af öllu tagi í ljósi þess að þjóðin er að þyngjast og er að verða með feitustu þjóðum í heimi. Síðast en ekki síst er það heilsugæslan á landsbyggðinni. Því er mikilvægt að aðgerðaáætlun verði kynnt sem fyrst og ráðherra hefur raunar greint frá því að sú vinna sé í fullum gangi. Aðkomu þingsins er hins vegar lokið og aðgerðaáætlun verður kynnt hér í formi kynningar.