149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

21. mál
[12:12]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Alþingi er nú að stíga sögulegt skref um að samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks beri að lögfesta. Þetta risaskref mun stórbæta réttindi fatlaðs fólks og öryrkja á Íslandi. Með lögfestingunni verður Ísland eitt fyrsta land í heimi til að lögfesta samninginn og það er ekki oft sem við getum sagt slíkt í þessum sal.

Eins og margir dómar sýna er mikill munur á lögfestingu og fullgildingu. Í raun höfum við einungis lögfest þrjá viðamikla alþjóðasamninga og eru það barnasáttmálinn, mannréttindasáttmáli Evrópu og EES-samningurinn. Nú verður samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks settur á þennan stall. Ég vil að lokum þakka baráttufólki fyrir réttindum fatlaðs fólks og þakka sérstaklega fyrir þann þverpólitíska stuðning sem þetta mál fær.

Þetta sýnir, herra forseti, að við getum gert stórkostlega hluti saman í þessum sal þegar við viljum.