149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

21. mál
[12:18]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við erum að greiða atkvæði um sjálfsögð mannréttindi. Loksins, loksins fara venjuleg mannréttindi að gilda um fatlað fólk sem auðvitað vekur upp þá spurningu: Hvers vegna í ósköpunum þurfum við að setja sérstök lög um mannréttindi fatlaðs fólks? Það er samt gleðiefni að við ætlum að gera það og auðvitað eigum við að sjá til þess. Það er stefnt að því að búið verði að koma öllum lagabálkum í lag 13. desember 2020. Þá verður vonandi komin sú réttarvissa í íslensk lög að þegar málefni fatlaðs fólks eru tekin fyrir dómstólum er ekki hægt að segja að það sé ekki hægt að fara eftir mannréttindum vegna þess að ekki sé búið að lögfesta þennan samning. Við verðum að sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að mannréttindi gildi fyrir alla.