149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

stofnun ráðgjafarstofu innflytjenda.

19. mál
[12:40]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég ritaði á nefndarálit þessa máls með fyrirvara og þeir snúa að tveimur þáttum. Við eigum þegar ráðgjafarstofu af þessu tagi, hún er staðsett á Ísafirði og heitir Fjölmenningarsetur. Í þeirri vissu að sú starfsemi sem nú á að efla verði byggð upp á forsendum þeirrar stofnunar — reynslan og þekkingin þar verði nýtt að fullu og að þetta verði ein en ekki tvær aðskildar stofnanir — styð ég tillöguna, með þeim fyrirvara.

Þess má geta líka, og fyrirvarinn snýr einnig að því, að Samfylkingin hefur staðið að þingsályktunartillögu um að farið verði í að vinna samræmda innflytjendastefnu til lengri tíma. Hún kom fram um svipað leyti og þessi tillaga var lögð fram. Við teljum eðlilegt að hún liggi fyrir áður en farið er að opna úrræði af þessu tagi án þess að við höfum heildarsýn yfir það hvernig við ætlum að byggja upp þennan mikilvæga þátt samfélagsþjónustunnar.

Heildarstefna er ekki til á Íslandi og að henni verður að vinna. En ég greiði þessari tillögu atkvæði. Heildarstefna bíður vonandi umfjöllunar næsta þings.