149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[20:54]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég hjó eftir því að hann nefndi flugfélagið WOW air. Það er önnur af tveimur ástæðum fyrir því að fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar þarf að endurskoða, þ.e. gjaldþrot flugfélagsins WOW air. Það er kannski rétt, frú forseti, að rifja aðeins upp í þeim efnum, að umfjöllun fjölmiðla um flugfélagið WOW air var lengi vel jákvæð og framgangur fyrirtækisins í miklum vexti, eins og við þekkjum. En árið 2017 varð síðan mikill viðsnúningur í rekstri fyrirtækisins. Engar fjárhagsupplýsingar voru birtar fyrr en um miðjan júlí 2018 og birti félagið ársreikning sinn mjög seint. Í ágústmánuði komu fréttir af taprekstri og að félagið væri að fara í skuldabréfaútboð. Í tengslum við skuldabréfaútboðið kom fram að eiginfjárhlutfall WOW air hafi verið komið niður í 4,5% í júní 2018, sem er afar lágt. Hins vegar hefur Samgöngustofa eftirlit með rekstri flugfélaganna og vinnur samkvæmt reglugerð í þeim efnum. Samgöngustofa á að framkvæma reglulegt mat á fjárhagsstöðu flugrekenda.

Þá veltir maður fyrir sér: Hvers vegna gat lausafjárstaða félagsins orðið með þessum hætti? Maður veltir fyrir sér hvort stjórnvöld hafi sofið á verðinum. Nú hefur þetta gjaldþrot haft afdrifaríkar afleiðingar í för með sér, meira að segja kallað á það að hér þurfi að endurskoða fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar.

Mig langar að heyra frá hv. þingmanni hvort hann hafi eitthvað kynnt sér þetta, hvort hann hafi einhverja skoðun á því að Samgöngustofa hafi þarna brugðist og (Forseti hringir.) hvort stjórnvöld ber að hluta til ábyrgð á þeim vanda sem skapaðist.