149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[21:02]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hér erum við að ræða nýja fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar vegna þess að sú gamla hélt ekki vatni og dugði aðeins í örfáa mánuði. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra mælti fyrir þessari nýju stefnu hérna kl. 15 í dag. Síðan þá hefur enginn hv. stjórnarþingmaður komið í ræðu og leyft okkur að eiga samtal um þetta mikilvæga plagg. Að vísu hafa hv. þingmenn, formaður fjárlaganefndar og formaður efnahags- og viðskiptanefndar, verið hér í andsvörum en það kemur ekki í staðinn fyrir ræður (Forseti hringir.) þannig að ég kalla eftir því, forseti, að stjórnarliðar taki þátt í umræðu um fimm ára fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar.