149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[21:09]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Fyrir einu og hálfu ári var sagt hér, en þá var önnur ríkisstjórn:

„Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en tekið undir með hv. þm. Smára McCarthy. Eitt er nú að ekki gangi meira undan ríkisstjórninni en raun ber vitni, sem í sjálfu sér er ágætt. Annað er að hún hafi ekki meiri trú á eigin málum en að hún geti ekki staðið hér fyrir þeim og átt orðastað við okkur. Í þriðja lagi er sorglegt, svo ég leyfi mér að nota það orð, hvernig hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans hafa ekki meira álit á þeirri málstofu sem Alþingi er en svo að þeir nenni ekki að taka þátt í umræðum almennt um stjórnarfrumvarp, sem ætti náttúrlega að gera um öll frumvörp, hvað þá frumvarp sem hæstv. ráðherrar í ríkisstjórn hafa sagt vera mikilvægasta frumvarpið á kjörtímabilinu. Á þessu frumvarpi virðist stjórnarmeirihlutinn engan áhuga hafa. Til hvers eru menn hér á Alþingi?“

Þetta sagði hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé þá og þau orð eiga mjög vel við einmitt í dag. Ég verð að segja að við sem erum í stjórnarandstöðunni núna erum bara mild (Forseti hringir.) og bljúg og eiginlega allt of góð við þessa ríkisstjórn miðað við þetta orðalag. Þetta eru samt sönn orð sem hv. þingmaður sagði þá og þau eiga vel við í dag. Ég óska eftir því að þingmenn stjórnarinnar taki þátt í þessum mikilvægu umræðum.