149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[21:32]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra gerir lítið úr þeim athugasemdum að vafi leiki á því að lögin um opinber fjármál leyfi endurskoðun fjármálastefnu við þær aðstæður sem nú eru uppi. Hæstv. ráðherra uppnefnir þá hv. þingmenn sem gagnrýna hringlandaháttinn í hagstjórninni sem formalista, svolítið kunnuglegt stef frá því fyrir hrun þegar gert var lítið úr ferlum og skýrum leikreglum einmitt þegar við þurftum mest á þeim að halda.

Ég hef áhyggjur af þessu, herra forseti. Hugmyndin með lagagreininni um að ríkisstjórn eigi að setja sér fjármálastefnu til fimm ára er að skapa trausta umgjörð um ríkisfjármálin og að ríkisstjórnir verði að hugsa út fyrir kjörtímabilið og horfa fram í tímann. Stefnan á að vera gegnsæ þannig að allir skilji hvert stjórnvöld eru að fara í ríkisfjármálum með mælanlegum markmiðum. Stjórnvöld eiga samkvæmt lögunum einnig að sýna festu með því að skipta ekki um stefnu með stuttum fyrirvara eftir því hvernig vindurinn blæs, heldur þurfi stórkostleg áföll til.

Stöðugleiki og sjálfbærni eru einnig lögbundin gildi sem fjármálastefna á að byggja á, og varfærni ekki síst. Í lögum um opinber fjármál er gert ráð fyrir að fjármálastefna hverrar ríkisstjórnar sé lögð fram aðeins einu sinni á hverju kjörtímabili og gildi í fimm ár, eða þar til ný ríkisstjórn setur fram nýja stefnu. Fjármálastefnan er eitt mikilvægasta þingskjal kjörtímabilsins. Í henni felst mikil skuldbinding um hvernig haga eigi skatta- og útgjaldastefnu stjórnvalda. Stjórnvöld þurfa að fylgja henni eftir og ströng skilyrði eru fyrir endurskoðun hennar. Samkvæmt 10. gr. laga um opinber fjármál má aðeins endurskoða fjármálastefnuna ef grundvallarforsendur hennar bresta eða fyrirsjáanlegt er að þær muni bresta vegna efnahagsáfalla, þjóðarvár eða annarra aðstæðna, sem ógerlegt er að bregðast við með tiltækum úrræðum. Það er ekki nóg að stjórnvöld langi til að breyta stefnunni eða að einhverjir veikleikar hafi komið fram við stjórn ríkisfjármála sem þau vilja helst kippa í lag. Stjórnvöld eiga að grípa til tiltekinna ráða með aðgerðum í fjármálaáætlun sem leiða til þess að markmiðum fjármálastefnunnar verði náð, hvort sem er á tekjuhlið, gjaldahlið eða með niðurgreiðslu skulda.

Fjármálastefnan er grundvöllur stefnumörkunar í opinberum fjármálum og um hagrænar forsendur hennar er fjallað sérstaklega í 8. gr. laga um opinber fjármál. Í þeirri grein segir að stefnumörkun skuli byggjast á traustum forsendum og gögnum, sem unnin eru hlutlægt og kerfisbundið, og opinberum hagtölum og þjóðhagsspám. Sérstaklega er tekið fram að stefnumörkunin skuli taka mið af fjárhagslegum og efnahagslegum áhrifum af áformum stjórnvalda. Rík krafa er gerð um gagnsæi svo ljóst sé hvernig áhrif áforma stjórnvalda birtast.

Það voru sérstök vonbrigði að í tillögu ríkisstjórnarinnar og meiri hluta fjárlaganefndar um gildandi fjármálastefnu var í engu brugðist við skýrum athugasemdum fjármálaráðs um ýmis atriði sem skipta verulegu máli, að tekið sé tillit til í stefnumörkun sem standast ætti tímans tönn. Nú þegar ferðamönnum fækkar mun atvinnuleysi vaxa. Auk þess munu ýmsar fjárfestingar sem stofnað hefur verið til ekki borga sig, með tilheyrandi kostnaði fyrir almenning. Hvert prósentustig í atvinnuleysi kostar 6–7 milljarða kr. Það er ekki bara fall WOW air, eins og rætt hefur verið um, sem varð til þess að koma þarf með nýja stefnu, eða loðnubresturinn. Ég hef áhyggjur af því, forseti, að niðursveiflan verði dýpri en gert er ráð fyrir í þessari stefnu, og ég hef áhyggjur af þeim nýlegu fréttum að stór flugfélög séu hætt við að fljúga til Íslands í sumar. Þau gefa ekki upp þá ástæðu að WOW air hafi farið á hausinn heldur einfaldlega að það sé minni áhugi á Íslandi. Það er sannarlega ástæða til að hafa áhyggjur af því.

Þá gerði fjármálaráð einnig alvarlegar athugasemdir við núgildandi stefnu sem víkja á frá og hina nýju stefnu, vegna þess að núgildandi stefna tók ekki mið af hagsveifluleiðréttingu. Það gerir hin nýja stefna hæstv. ríkisstjórnar ekki heldur. Hefði það verið gert er ljóst að áætlaður afgangur af opinberum fjármálum hefði átt að vera meiri en núgildandi stefna gerir ráð fyrir. Af umsögn fjármálaráðsins um þá stefnu var ljóst að afla þyrfti aukinna tekna svo velferðarkerfið yrði ekki fórnarlamb niðurskurðar ef aðstæður breyttust í hagkerfinu og stjórnvöld gætu lent í spennitreyju fjármálastefnunnar.

Nú hefur komið í ljós að gagnrýni fjármálaráðs, sem ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn gaf lítið fyrir, var réttmæt. Fjármálaráð benti í umsögn sinni á að miðað við hversu mikla óvissu framtíðin bæri í skauti sér væri ekki ráðlegt að niðurnjörva alla liði fjármálastefnunnar. Ráðið taldi og telur að ein prósentutala um afkomumarkmið sé of mikil nákvæmni og benti á að lögin um opinber fjármál útilokuðu ekki að setja megi markmiðin fram með margvíslegum hætti, t.d. með punktmati, einhliða eða tvíhliða bilum, með eða án skilyrða. Ríkisstjórnin og meiri hluti fjárlaganefndar hunsuðu þessar athugasemdir fjármálaráðs eins og aðrar.

Í umsögn sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd sendi hv. fjárlaganefnd um fjármálastefnuna, var einmitt fjallað um þetta atriði. Hv. efnahags- og viðskiptanefnd talaði um það í umsögn sinni að æskilegt væri að hv. fjárlaganefnd gerði þarna breytingar í takt við það sem fjármálaráð lagði til. En ekki var farið eftir því heldur. Þau völdu að halda sig í spennitreyjunni.

Hvernig bregst hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra við í greinargerð með nýrri fjármálastefnu? Jú, með því að benda á að núgildandi fjármálastefna byggist á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands frá nóvember 2017, sem fól í sér að efnahagsframvinda yrði áfram hagfelld og stöðug þannig að uppsafnaður hagvöxtur yrði um 14% út spátímann. Vandinn er sem sagt Hagstofunni að kenna en ekki óábyrgri stefnumótun ríkisstjórnarinnar.

Herra forseti. Við þekkjum það vel að spálíkön sem notuð eru við hagspá, hvort sem er hjá Hagstofunni, Seðlabankanum, ASÍ eða bönkunum, eru ekki fullkomin. Hagspáin miðar við ákveðnar forsendur en jafnframt eru veikleikar tilgreindir. Það sér hver maður að viðbúið er að hagkerfi eins og okkar, sem byggir á stórum atvinnugreinum eins og ferðaþjónustu og sjávarútvegi, sveiflast eftir fjölda ferðamanna sem hingað sækir og afla sem veiddur er og verði á honum. Það er rétt að bæði ferðamenn og fisktegundir geta fært sig til annarra landa og á önnur mið. Einmitt þess vegna er svo mikilvægt að búa hagkerfið undir sveifluna þannig að ríkisfjármálin vinni gegn niðursveiflum en safni í forða í uppsveiflunni. Slíkt þarf að endurspeglast í fjármálastefnu sem á að standast tímans tönn.

Afkoma og skuldastaða hins opinbera þarf að veita færi til að beita fjármunum hins opinbera í sveiflujöfnunarskyni. En það er ekki stefna þessarar hæstv. ríkisstjórnar. Ríkisfjármálin eru ekki notuð í þeim tilgangi. Í stað þess er gert ráð fyrir að raunvextir tekna og gjalda verði áþekkir hagvexti tímabilsins samkvæmt bjartsýnni spá um endalausan hagvöxt. Það var stefnan samkvæmt núgildandi fjármálastefnu.

Sjálfvirk sveiflujöfnun í ríkisfjármálum gerir hreint ekki ráð fyrir að tekjur og gjöld vaxi til jafns. Þar með er sveiflujöfnunin tekin úr sambandi. Fjármálaráð benti á að ákjósanlegast væri að aðhaldið kæmi ekki fram í sértækum aðgerðum í útgjöldum eða á tekjuhlið heldur myndi hin innbyggða sveiflujöfnun ráða för. Það er hins vegar ekki stefna stjórnvalda sem hunsaði allar ábendingar fjármálaráðs. Vonandi munu stjórnarliðar í hv. fjárlaganefnd breyta nýrri stefnu í samræmi við ábendingar fjármálaráðs, sem von er á síðar í vikunni, ef ég hef skilið rétt.

Herra forseti. Ég hef ekki tíma til að klára ræðu mína og bið forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá. En ég get þó sagt að lokum að hagstjórn ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er ekki traustvekjandi.