149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[21:57]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Kannski er rétt að rifja upp hver það var sem lagði svona mikla áherslu á að setja í lög um opinber fjármál fjármálareglur og að umgjörðin um fjármálastefnuna væri ósveigjanleg. Það var einmitt hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem á sínum tíma kom með þessar fjármálareglur inn í frumvarpið um opinber fjármál. Ég vil líka rifja upp að það voru nánast einu greinarnar sem ekki var sátt um í þessum sal.

Þegar við afgreiddum lögin um opinber fjármál man ég að ég sagði úr þessum ræðustóli að um leið og Samfylkingin kæmist í færi til þess myndi hún breyta 7. gr. laga um opinber fjármál og 10. gr. um fjármálastefnuna. Það er sjálfsagt mál, finnst mér, og sjálfsagt að ætlast til þess í lögum að ríkisstjórn setji sér fjármálareglur og -stefnur en það á ekki að setja regluna og binda tölur og viðmið í lög. Það er hins vegar hugmynd (Forseti hringir.) hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem núna er í vandræðum (Gripið fram í.) af því að hann getur ekki uppfyllt skilyrðin sem hann vildi endilega að setja sjálfur. (Gripið fram í: … allar fjármálastefnur.)