149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[22:16]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum einmitt í því ástandi þar sem nefndar eru þær ástæður fyrir því að hægt sé að taka upp fjármálastefnu að skakkaföll séu í atvinnulífinu og ófyrirséður tekjumissir en hann verður að ríma við lagagreinina sjálfa um að það sé þjóðarvá eða efnahagsáfall. Það verður að vera af þeirri stærðargráðu og það er sú stærðargráða sem við erum einmitt að glíma við í þessu óvissusvigrúmi sem er nú búið að bæta við en við verðum að spegla það í hina áttina á sama hátt. Stundum gætu komið upp tækifæri þar sem verkefni eru það augljóslega arðbær að við myndum leggja í þau þó að framleiðsluspennan myndi kannski aukast eitthvað eða eitthvað því um líkt, þrátt fyrir að þessi þrönga þumalputtaregla sem ég talaði um áðan gangi kannski í gegn sem væri að vissu leyti náttúrlega betra að grípa til þegar væri ákveðin niðursveifla en uppsveifla.

En við megum ekki láta það koma alveg í veg fyrir að við horfum einmitt á hversu arðbær viss fjárfesting eða verkefni er fyrir þjóðfélagið í hvers konar ástandi hagkerfið er því að óháð því hvernig ástandið á hagkerfinu er — það spilar inn í það hversu arðbært verkefnið er upp á það að ef framleiðsluspennan er mikil kostar einfaldlega meira að fara út í það verkefni sem gerir það þá minna arðbært o.s.frv. Við eigum alltaf að vera að spila þetta á nákvæmlega þeim forsendum, sem er einmitt sleppt að gera í núverandi fjármálaáætlun. Það er algjörlega hunsað hver kostnaðurinn er til að byrja með og hver arðurinn er af þeirri stefnu stjórnvalda þannig að við erum ekki einu sinni komin þangað (Forseti hringir.) og ef við erum ekki komið þangað, hvað getum við gert þá með fjármálastefnuna?