149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[22:54]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Eins og við þekkjum eru lög um opinber fjármál tiltölulega ný lög og tóku gildi 1. janúar 2016 og segja má að við höfum verið að læra inn á þau. Svo stöndum við allt í einu frammi fyrir því að ríkisstjórnin hefur ákveðið að endurskoða fjármálastefnuna sem eru náttúrlega nýtt í þessu ferli líka. Með fjármálastefnunni eru sett fram þau almennu markmið um þróun opinberra fjármála eins og við þekkjum. Í 10. gr., eins og hv. þingmaður nefndi réttilega, er fjallað um endurskoðun stefnunnar. Ég lagði upp með það í ræðu minni fyrr í dag að talað er um aðstæður, óviðráðanlegar aðstæður og þjóðarvá eða alvarlegt efnahagsáfall, að það séu svona grundvallaratriðin sem liggja að baki því að endurskoða stefnuna. Í sjálfu sér tel ég að slíkar reglur séu af hinu góða.

Það sem vantar hins vegar í þetta, að mínu mati, eru nánari útlistanir á því hvenær beri að endurskoða stefnuna. Nú lagði t.d. hæstv. fjármálaráðherra áherslu á það að hann teldi bara skynsamlegt að endurskoða stefnuna og þar með værum við komin í þetta ferli. Ég held að þar verði þá að vera einhvers konar tölulegar upplýsingar, þ.e. versnandi afkoma ríkissjóðs og þá einhverjar prósentutölur í þeim efnum, þegar kemur að efnahagsmálum, af vergri landsframleiðslu o.s.frv., eitthvert hlutfall sem þurfi að liggja fyrir til að hægt sé að fara þá leið.