149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[23:35]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir prýðisræðu. Ég ætla fyrst að staldra við störf fjármálaráðs. Hv. þingmaður kom inn á störf fjármálaráðs og grunngildin sem er að finna í lögum um opinber fjármál. Áður en ég set fram spurningu mína vil ég segja þá skoðun mína að fjármálaráð sé styrkleiki, gæti ég sagt, við umgjörð opinberra fjármála í dag. Það hafa umsagnir við mál sýnt og á margan hátt grundvallað umræðuna.

Fjármálaráð er sjálfstætt í störfum sínum og ber að meta fjármálastefnu og fjármálaáætlun út frá þeim grunngildum sem við lesum um í 6. gr. laganna og hv. þingmaður fór hér með, nefndi í framhjáhlaupi, trúi ég, orðskrúð í því samhengi. (Gripið fram í.) Ja, ég held að hv. þingmaður fái þá tækifæri til að svara fyrir sig í andsvari sínu. Orðum fylgir ábyrgð. Það er einmitt mjög mikilvægt að við lærum að vinna með þau grunngildi og þau skipta verulegu máli þegar við horfum á rökstuðninginn fyrir því að við erum að fara þá leið að endurskoða stefnuna, sem ég ætla að koma að í síðara andsvari.