149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[23:39]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég get svo sem sagt hér að rauði þráðurinn í ræðu hv. þingmanns bar þess ekki merki að orðskrúð ætti að vera í neikvæðri merkingu, þannig að það sé sagt. En af því að hv. þingmaður kom inn á skattalækkun speglast m.a. grunngildið sjálfbærni í þeirri áherslu stjórnvalda undanfarin misseri að greiða skuldir niður, horfa á sjálfbærni og að við ráðum við vaxtabyrðina, að hún hvíli ekki á komandi kynslóð. Það er sjálfbærni.

Hv. þingmaður kemur inn á að skilja eftir svigrúm fyrir skattalækkanir. Auðvitað er alltaf æskilegt að stefna haldi en við þessa snöggu niðursveiflu og tekjusamdrátt upp á 40 milljarða er aðeins tvennt að gera, að hækka skatta eða hætta við skattalækkanir eða skera niður útgjöld. Það myndi ganga gegn grunngildinu um stöðugleika gagnvart efnahagslífinu. (Forseti hringir.) Við verðum að átta okkur á rökstuðningnum fyrir því að þessi leið er farin. (Forseti hringir.) Lífskjarasamningurinn heldur í ríkisfjármálaáætlun vegna þess að við erum að endurskoða stefnu, sem er bara skynsamlegt.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir á tímamörk.)