149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[23:42]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Eins og hér hefur svo sem margkomið fram í dag erum við því miður að bregðast við stöðu sem var nokkuð fyrirsjáanleg. Það er miður að þurfa að minna á að þessi fjármálastefna sem átti að duga í fimm ár, dugði í rúmt ár. Það er mjög óheppilegt, herra forseti, að við séum strax komin í þá stöðu að þurfa að hringla með það grundvallarplagg sem fjármálastefnan er og fjármálaáætlunin á að byggja á. Síðan koma fjárlögin líka ofan á það. „I told you so“, ef maður má sletta úr ræðustól, (Forseti hringir.) er kannski við hæfi að segja.

(Forseti (ÞorS): Þingmálið er íslenska.)

Þingmálið er íslenska. Þá tek ég þetta til baka og segi: Á það var bent, herra forseti, að sú forsenda um að hér yrði 13–14 ára samfelldur hagvöxtur, væri ekki raunsæ þegar þessi stefna var rædd fyrir rúmu ári. Nú erum við komin í samdrátt. Landsframleiðslan er sem sagt farin að dragast saman og við erum að upplifa mesta viðsnúning í hagkerfinu í tæp 30 ár, að hruninu undanskildu. Það er alvarlegt og þarf að bregðast við með einhverjum hætti. Ég hef verið að kalla eftir því í allan dag hvernig ríkisstjórnin ætlar að bregðast við þessu höggi sem er upp á 40–46 milljarða kr. á hverju ári í fimm ár að öllu óbreyttu. Því er ósvarað enn þá. Jú, það á að þurrka upp afganginn, en það eitt dugar ekki til að mæta þessu höggi. Ég óttast að höggið verði meira en hér er áætlað.

Mig langar að vitna aðeins í skoðun deildarstjóra hagdeildar ASÍ sem fjallaði nýverið í fjölmiðlum um þessa breyttu fjármálastefnu. Eftir henni er haft, með leyfi forseta:

„Henný segir að mikilvægt sé að fyrirhugaðar breytingar verði ekki til þess að draga úr getu ríkissjóðs til að standa undir nauðsynlegum útgjöldum til velferðar og innviðauppbyggingar. „Það á að okkar mati ekki að nota útgjöld til heilbrigðis- og velferðarmála til sveiflujöfnunar í ríkisrekstrinum,““ segir ASÍ, Alþýðusamband Íslands.

Ég tek heils hugar undir það. Við þurfum svo sannarlega að standa í lappirnar hvað þetta varðar, að leyfa ekki ráðherrunum, hægri öflunum, að ná fram einhverjum markmiðum í ríkisfjármálum með því að skera niður til heilbrigðis- og velferðarmála. Flokkarnir sem mynda ríkisstjórnina voru ekki kjörnir til að skera niður í heilbrigðis- og velferðarmálum, þvert á móti. Önnur eins kosningaloforð hef ég ekki séð eins og ég sá frá ríkisstjórnarflokkunum.

Mig langar aðeins að halda áfram að vitna í deildarstjóra hagdeildar ASÍ, Henný Hinz. Eftir henni er haft, með leyfi forseta:

„Þess vegna hafi legið fyrir að þegar hægja tæki á þyrfti að fara í mótvægisaðgerðir þvert á hagsveifluna, sem sagt annaðhvort hækka skatta eða skera niður. „Það er óheppilegt að í fyrsta skipti sem reynir á þetta fyrirkomulag sem er búið að koma á í opinberum fjármálum, sem á að gefa aukinn fyrirsjáanleika og festu, […] skuli strax þurfa að fara í að endurskoða stefnuna,“ segir Henný. Hætta er á að þetta kunni að hafa áhrif á trúverðugleika fjármálastefnunnar til framtíðar.“

Annars staðar er haft eftir Henný Hinz, með leyfi forseta:

„Til dæmis sé rétt að endurskoða áform um lækkun bankaskatts auk þess sem ASÍ telur æskilegt að styrkja tekjustofna ríkisins og auka jöfnunarhlutverk skattkerfisins …“

Ég held að ég gæti ekki orðað það betur. Þetta er einmitt það sem við í Samfylkingunni höfum kallað eftir, bæði í þessari umræðu og fyrir einu ári og í hvert skipti sem við opnum munninn þegar kemur að ríkisfjármálunum. Við þurfum að styrkja tekjustofna ríkisins. Við þurfum að gæta að jöfnunarhlutverki skattkerfisins og höfum verið ófeimin að tala um það. Ég veit að í hugum sumra stjórnmálamanna eru skattar eitthvert skammaryrði. Þeir eru það ekki. Skattar eru það gjald sem við greiðum fyrir siðað samfélag, sagði einhver. Þess vegna eigum við vera stolt af þeirri stofnun sem skattkerfið er. Einkenni vanþróaðra ríkja eru oft vanþróuð skattkerfi. Þess vegna hef ég og við í Samfylkingunni lengi kallað eftir því að skattkerfið sé bæði skilvirkt og sanngjarnt, að hin svokölluð breiðu bök séu fundin þar sem þau er að finna.

Hér er einfaldlega vannýtt tekjuúrræði ríkissjóðs. Við höfum nefnt það með málefnalegum hætti, hvort sem litið er til stórútgerðar, auðmanna eða fjármagnseigenda. Þetta eru allt aðilar sem gætu þolað örlitla aukna skattbyrði á sama tíma og við gætum hlíft (Forseti hringir.) þeim hópum sem hlífa ber þegar kemur að samdrætti eins og við erum nú að upplifa.