149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[23:48]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til að þakka hv. þingmanni fyrir prýðisræðu, bæði fyrri og seinni ræðu, og vekja um leið athygli á því að það er mikilvægt að við ræðum uppbygginguna á velferðarkerfinu, hvernig við ætlum að byggja hér upp öflugt hagkerfi til að geta staðið undir bæði velferðarkerfi og menntakerfi, en um leið farið að efla þá innviði sem hafa því miður verið vanræktir of lengi. Auðvitað þurfum við þá öfluga fjármálaumgjörð og skýra stefnu.

Talandi um fjármálastefnu vil ég undirstrika það sem ég sagði hér fyrr í kvöld og vitna í orð núverandi forsætisráðherra, þáverandi stjórnarandstöðuþingmann, sem talaði um að fjármálastefnan væri grundvallarplagg hverrar ríkisstjórnar. En enn sem komið er hefur ekki einn þingmaður Vinstri grænna tekið til máls og farið yfir nákvæmlega fjármálastefnuna, hvernig hugsjónir þeirra birtast í þessu grundvallarplaggi, hvernig stefna þeirra birtist þarna.

Stefnan vekur upp spurningar, þegar maður hefur lesið hana gaumgæfilega, um hina röngu aðferðafræði ríkisstjórnarinnar, sem varað var við, m.a. af fjármálaráði, okkur í stjórnarandstöðunni og fleirum, þ.e. að verið væri að stórauka ríkisútgjöld, og á sama tíma var lækkun á tekjuhliðinni þannig að felld voru niður veiðigjöld á útgerð upp á marga milljarða o.s.frv. Fyrir vikið er ég hrædd um að þessi ranga aðferðafræði muni koma niður á þeim sem verst standa. Tölum um aldraða og tölum um öryrkja, því að hér stendur m.a. að aðhaldsstig opinberra fjármála auki ekki á samdrátt eða hjöðnun hagvaxtar umfram þá aðlögun sem hagkerfið er að ganga í gegnum.

Þýðir þetta að mati hv. þingmanns að við stöndum hugsanlega frammi fyrir því fyrr en síðar (Forseti hringir.) að grunnreksturinn, sem er orðinn umfangsmikill, lendi fyrstur undir niðurskurðarhnífnum, og þá sérstaklega öryrkjar sem ekki hafa verið mikil teikn um að ríkisstjórnin hafi sinnt með endemum vel á síðustu misserum?

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir á tímamörk.)