149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[23:57]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mér fannst athyglisvert það sem hv. þingmaður kom inn á varðandi meðferð málsins í þinginu. Ég er þeirrar skoðunar að við í þinginu þyrftum að fá meiri og betri gögn til að geta farið yfir þetta mál vegna þess að þetta er stórt mál og, eins og komið hefur fram, grundvallarplagg hverrar ríkisstjórnar. Nú er verið að endurskoða það í fyrsta skipti í sögu þessara laga. Ég ræddi það sérstaklega í ræðu í dag að ég tel að hæstv. ráðherra beri að leggja fram greiningar eða sviðsmyndir sem hjálpi okkur hv. þingmönnum að meta stöðuna og með faglegri hætti áhrifin á fjölskyldur, heimilin í landinu, fyrirtækin o.s.frv., sem sagt að þetta sé allt metið hvert fyrir sig og síðan samanlagt og mikilvægt í því að leggja fram nýja stefnu, að við sjáum heildarmyndina og hver áhrifin verða.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að rætt var um að endurskoðunin sé gerð á réttum forsendum: Er hugsanlegt, og ég velti því bara fram sem vangaveltu, að þessi heimild gæti í raun verið misnotuð í lögunum? Hér segir hæstv. ráðherra að það sé (Forseti hringir.) almenn skynsemi að endurskoða stefnuna, en nú er náttúrlega tekið fram í lögunum að það þurfi að vera þjóðhagsvarúð, alvarleg efnahagsáföll o.s.frv.