149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[23:59]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég geri í sjálfu ekki athugasemdir við að við séum að endurskoða þessa fjármálastefnu. Ég gerði ráð fyrir því í ljósi þeirra veiku forsendna sem hún var byggð á fyrir einu ári og mér finnst bara dapurlegt að hæstv. fjármálaráðherra hafi ekki hlustað. Eins og ég segi þarf hann ekkert að hlusta á einhvern stjórnarandstöðuþingmanninn, hann getur hlustað á sitt eigið sjálfstæða fjármálaráð, hann getur hlustað á hagsmunaaðila vinnumarkaðarins, hann getur hlusta á einhvern þeirra sérfræðinga sem vöruðu við nákvæmlega þeirri stöðu sem blasir nú við.

Ég tek undir orð hv. þingmanns um að við í fjárlaganefnd þurfum kannski að vinna þetta aðeins betur og fá betri upplýsingar. Við höfum lengi, og ég veit að hv. þingmaður hefur gert það, kallað eftir frekari sviðsmyndargreiningum og fráviksgreiningum því að auðvitað er heilmikil óvissa í hagspám. Við vitum það alveg. Eina fráviksspáin sem er í þessari stefnu er að í staðinn fyrir 11% fækkun ferðamanna ætlar ráðherra að gera ráð fyrir 14% fækkun ferðamanna og hann ætlar að gera ráð fyrir að loðnubrestur verði aftur 2020. Þetta er eina fráviksspáin sem við fáum. Auðvitað ættu að vera miklu fleiri og dýpri fráviksspár. Við ættum að hafa háspá, miðspá og lágspá.

Ég sat í bankaráði Seðlabanka Íslands í fjögur ár og man að þá fengum við ítarlegri sviðsmyndargreiningar. Við erum búin að tala um þetta, ég veit að hv. þingmaður situr með mér í fjárlaganefnd, við erum ítrekað búin að tala um af hverju við fáum ekki ítarlegri greiningar á því hvað gerist ef gengi krónunnar lækkar um 10% til viðbótar. Hvað gerist ef olíuverðið hækkar um x prósent? Hvað gerist ef verðbólgan fer á flug eins og ég óttast? Að öllu leyti hanga þessar tölur saman og mér finnst mjög sérkennilegt að við getum ekki fengið dýpri og betri sviðsmyndargreiningar og fráviksgreiningar. Það væri svo sannarlega málinu til bóta, sérstaklega í ljósi þess að frávikin eru það sem við erum alltaf að díla við. Við erum hvorki meira né minna en að tala um frávik núna (Forseti hringir.) af þeirri stærðargráðu að viðsnúningurinn hefur ekki verið meiri í hagkerfinu í 30 ár að hruninu undanskildu.