149. löggjafarþing — 115. fundur,  4. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[00:02]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég tek undir með honum hvað þetta varðar, það er afar mikilvægt að við fáum réttu gögnin til að geta metið áhrifin á hina ýmsu þætti samfélagsins.

Það sem mig langaði að koma aðeins inn á við hv. þingmann er að á bls. 11 í tillögunni segir í 2. mgr., með leyfi forseta:

„Til millilangs tíma er mikilvægt að halda áfram að byggja upp viðnámsþrótt hagkerfisins gagnvart sveiflum með uppbyggingu eigna …“

Með uppbyggingu eigna — ég vek sérstaklega athygli á því. Ég held að hér sé verið að vísa til þjóðarsjóðs eða velti fyrir mér hvort það gæti verið. Ég held að ég hafi ekki heyrt skoðun hv. þingmanns á því hvort eðlilegt væri undir þessum kringumstæðum að falla frá áformum um þjóðarsjóð og nýta þá fjármuni sem voru ætlaðir í sjóðinn til innviðauppbyggingar og fjárfestingar. Fram hefur komið að nú eru væntanlegar töluvert háar arðgreiðslur, t.d. frá Landsvirkjun, sem eru hugsaðar í þann sjóð. Væri kannski skynsamlegt að setja þau áform til hliðar og nýta þá fjármuni í að ríkissjóður komi inn í það að bregðast við niðursveiflunni með því að örva hagkerfið með fjárfestingum sínum og innviðauppbyggingu? Það væri gott að fá skoðun hv. þingmanns á því.