149. löggjafarþing — 115. fundur,  4. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[00:04]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þjóðarsjóðinn hljómar orðið afskaplega vel í krataeyrum eins og ég hef en við nánari skoðun er hann ekki eins og hér er lagt til. Af einhverjum furðulegum ástæðum er arður af sameiginlegri auðlind sem lýtur að sjávarauðlindinni undanskilinn. Það er mjög sérkennilegt að alltaf þurfi sjávarútvegurinn að fá einhverja sérmeðferð hjá þessari ríkisstjórn.

Í öðru lagi er það mjög gagnrýnisvert að umsjón þjóðarsjóðsins eigi að vera hjá einkaaðilum á sama tíma og Seðlabankinn getur vel séð um umsýslu slíks sjóðs.

Í þriðja lagi, sem er kannski stóra spurningin hjá hv. þingmanni: Hver er eiginlega þörfin á einhverjum þjóðarsjóði þegar við erum að ganga í gegnum þann samdrátt sem raun ber vitni? Flestir eru sammála um að beita ríkisfjármálunum til jöfnunar sveiflu í hagkerfinu, sem er rétt. Þegar eftirspurn á einkamarkaði dregst saman á hið opinbera að kikka inn, ef svo má segja. Þá er mjög sérkennilegt að hér sé vilji til að setja á fót einhvers konar þjóðarsjóð til hliðar á sama tíma og við höfum einfaldlega sjóð sem kallast ríkissjóður sem getur vel tekið á móti þeim arði sem hlýst af orkuauðlindum og fleiri auðlindum til að mæta þeim áföllum sem við erum að ganga í gegnum.

Svo minni ég að lokum á hin svokölluðu gildi laga um opinber fjármál, sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu og gagnsæi. Þetta fer afskaplega vel á blaði en mikið er sorglegt hvað okkur gengur illa að uppfylla öll þau gildi, sérstaklega í umræðu um fjármálastefnu. Fjármálastefnan hefur hvorki verið sjálfbær, varfærin, stöðug né borið vitni um festu og gagnsæi. Okkur virðist einhvern veginn vera að fara aftur hvað þetta varðar, herra forseti, og ég vildi vekja sérstaklega athygli á því í lok þessa andsvars.