149. löggjafarþing — 115. fundur,  4. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[00:06]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Við ræðum áfram í kvöld breytingartillögu um fjármálastefnu ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, þeirrar ríkisstjórnar sem er 17 mánaða gömul, 14 mánaða fjármálastefnu sem strax er byrjað að endurskoða. Stjórnin setti sér vegleg markmið í upphafi en hún neyðist sem sagt til að endurskoða þær forsendur sem hún gaf sér, þær forsendur sem hún gaf sér má segja nánast blindandi þrátt fyrir að varað hafi verið við þeim.

Trommað var upp með óraunhæf útgjaldaloforð, við vitum það. Allir áttu að fá allt. Ég hef sagt það fyrr í kvöld að við í Viðreisn vorum ekki endilega vinsælust með kosningaloforð okkar. Við fengum að heyra að við værum ekki að lofa nógu, en við vildum lofa ábyrgt og lofa þannig að við gætum staðið við þau loforð. En trommað var upp með óraunhæf útgjaldaloforð. Allir áttu að fá allt og meðlimir stjórnarheimilisins voru og hafa verið duglegir við að temja sér að tala aðeins í efsta stigi um eigið ágæti og afrek. Það er ekkert að því að mínu mati að sýna metnað en þegar fjármálastefna er annars vegar verðum við að kalla eftir raunsæi og skynsamlegum forsendum.

Herra forseti. Það kemur alltaf að því, sama hversu mikið við teljum okkur trú um annað, að blessaður raunveruleikinn bítur okkur í rassinn. Þó að við segjum endalaust að himinninn sé grænn verður hann ekki grænn, herra forseti, sama hvað við reynum. Við í Viðreisn höfum í þessu máli eins og reyndar ýmsum öðrum málum — ég ætla ekki að nefna krónuna akkúrat í þessu samhengi þó að það eigi vel við — ítrekað bent á fílinn í herberginu varðandi fjármálastefnuna, að forsendur hennar og þar af leiðandi fjármálaáætlunarinnar standist ekki og hafi aldrei staðist. Fyrir vikið höfum við fengið að heyra og verið nokkuð úthrópuð fyrir það að vera svartsýnissauðir og pínulitlir nöldurseggir. Við höfum haldið þeim málflutningi á lofti í umræðunni um stefnuræðu forsætisráðherra um fjármálastefnuna 2018–2022, um fjármálaáætlun og fjárlög. Við höfum haldið þessu fram og sett þetta fram í óundirbúnum fyrirspurnum, ekki fengið nein svör þar eins og iðulega er orðin lenska á þeim bæ. Við höfum bent á þetta í sérstökum umræðum, í störfum þingsins, í viðtölum í flestum fjölmiðlum, í innsendum greinum, á opnum fundum og svo mætti lengi telja. Við höfum ítrekað sagt að það þurfi ábyrga hagstjórn sem er ekki reist á einhverjum skýjaborgum og óskhyggju heldur staðreyndum og raunveruleikanum sjálfum. Við vitum að við búum í sveiflukenndu hagkerfi. Við erum með óstöðugan gjaldmiðil og ég vona að ég sjokkeri ekki neinn með þeim mikilvægu upplýsingum. Þetta er staðreynd, meira að segja óumdeild.

Okkur hér inni greinir hins vegar á um hvernig eigi að leysa úr þeim vanda, við skulum bara kalla það eins og það er á íslensku, úr þeim ömurlegu efnahagssveiflum sem við þurfum að takast á við á u.þ.b. tíu ára fresti. Þrátt fyrir að þetta séu síendurteknar sveiflur, þessar ömurlegu efnahagssveiflur sem fara upp en hressilega niður aftur, er eins og við viljum ekki alltaf alveg læra af sveiflunum á undan. Þetta eru sveiflur sem við vitum að koma verst niður á heimilunum í landinu, fólkinu sem dagsdaglega reynir að sjá fyrir sér næstu mánaðamót og er að reyna að skipuleggja t.d. sumarfríið þessa stundina.

Það var líka aðeins minnst á menntun áðan. Hv. þm. Ágúst Ólafur kom inn á hana áðan. Hún skiptir máli en maður sér ekki nægilega mikla festu varðandi það hvernig við ætlum annars vegar að taka á menntun — tökum lánasjóðinn sem hefur verið sjálfbær í nokkur ár, hvernig við sjáum menntunina og framlög til menntamála aukast samhliða því hvernig við ætlum að byggja upp nýsköpun, sprotafyrirtæki og síðast en ekki síst að láta þau verða lífvænleg þannig að hægt verði að byggja upp nýsköpunar- og sprotafyrirtæki. Það er ekki hægt að gera nema við förum að tala af alvöru um efnahagsmálin. Þetta verður að fara saman; menntun, nýsköpun og síðan efnahagsumhverfið sem slíkt.

Þetta var aukaútúrdúr en þetta er það sem við sjáum engu að síður út úr fjármálastefnunni. Hún er ekki nægilega metnaðarfull á þessu sviði. Við verðum að fara að þora að taka ákveðnari skref til framtíðar varðandi uppbyggingu verðmætra starfa innan nýsköpunar- og sprotageirans. Það er alveg hægt en það þurfa að vera meiri hvatar.

Herra forseti. Það hefur ekki alltaf verið það skemmtilegasta af öllu að vera ákveðinn partíspillir í þessu, en vinur er sá er til vamms segir. Ríkisstjórnin hefur allan tímann vitað að það kæmi að þessum degi, deginum þar sem þau þurfa að bakka frá eigin fjármálastefnu og leggja fram breytingartillögu til þess að takast á við þá niðursveiflu sem nú ríður yfir og var fyrirsjáanleg. Þau ákváðu hreinlega að aðhafast ekki fyrr en þau þurftu nauðsynlega að gera það. Það er í raun og veru að mínu mati ekkert annað en ákveðið gáleysi. Það hefur skort pólitískan kjark til að mæta þeim efnahagslegu áskorunum sem við stöndum frammi fyrir og höfum staðið fyrir allt kjörtímabilið. Ótal sérfræðingar hafa varað við þessari stöðu og ég legg mig í líma við að hlusta á þá. Forsendur voru alltaf of bjartsýnar. Tannpína hverfur ekki með því að neita að fara til tannlæknis um tíma. Maður getur kannski tekið verkjatöflur í smástund en vandinn ágerist bara og reikningurinn hækkar eftir því sem lengur er beðið. Þetta vita menn af biturri reynslu og þetta ættu æðstu ráðamenn þjóðarinnar að skilja.

Heimilin hafa lært sína lexíu, atvinnulífið líka, en ríkisfjármálin ekki. Við vitum líka að ástæðan fyrir því — ég undirstrika að það er ekkert að því að endurskoða fjármálastefnu, hreyfa til þegar ákveðin efnahagsáföll og forsendur laganna um endurskoðun fjármálastefnu eru uppfyllt. En við skulum segja hlutina eins og þeir eru, farið var allt of bratt af stað. Það var ekki hægt að hlusta á sérfræðinga eða ráð aðila víða úr samfélaginu, en það þurfti að halda ríkisstjórninni saman. Við vitum, af því að stutt er síðan ríkisstjórnin varð til, að það varð allt brjálað meðal Vinstri grænna og auðvitað þurfti að passa upp á að þau fengju sínar útgjaldakröfur uppfylltar sem allra fyrst og vaðið var af stað í það á sama tíma og menn fóru í að lækka skatta. Það er sú eitraða blanda sem við í Viðreisn höfum ítrekað bent á, að stórauka ríkisútgjöld í efnahagslegri uppsveiflu og lækka á sama tíma skatta eða veiðigjöld eins og við höfum náttúrlega upplifað fyrir bestu vini ríkisstjórnarinnar.

Ríkisstjórnin þurfti að vinna sér inn tíma. Vinstri græn þurftu tíma til að róa sitt fólk og það hefur tekist alveg ágætlega. Það er þetta sem við þurfum að segja að ríkisstjórnin hafi ekki horfst í augu við.

Gott og vel, við stöndum núna frammi fyrir þessari breytingartillögu og við skulum þá undirstrika þau sjónarmið sem að baki þurfa að liggja samkvæmt 10. gr. laga um opinber fjármál. Þar segir að endurskoða megi fjármálastefnuna vegna efnahagsáfalla, þjóðarvár eða annarra aðstæðna, sem ógerlegt er að bregðast við með tiltækum úrræðum.

Hér er því ekki um léttvæga ákvörðun eða breytingu að ræða. Því er undarlegt, og ég undirstrika það, að enginn stjórnarþingmaður, ekki neinn frá Vinstri grænum — sem betur fer höfum við fengið andsvör frá m.a. formanni fjárlaganefndar sem hefur komið með mjög málefnaleg innlegg inn í þetta. En mér er spurn: Af hverju hafa Vinstri græn og forystuflokkurinn í ríkisstjórn ekki komið hingað upp og útskýrt hvað þetta þýðir, m.a. fyrir velferðarkerfið? Hvað er verið að fara í? Er undir rós verið að tala um niðurskurð, þá hvaða niðurskurð og er ekki best að koma hreint fram strax frekar en að koma með þetta nokkrum dögum og vikum síðar? Menn eiga að fara að læra af þessari reynslu.

Þegar lög um opinber fjármál voru sett árið 2015 tók hæstv. forseti þátt í umræðunni. Hann lýsti því að endurskoða mætti 6. gr. laganna sem tekur til grunngilda fjármálastefnunnar. Hann sagði þá, með leyfi forseta:

„Það væri líka gaman að prófa að orða 6. gr. upp á nýtt út frá reynslunni frá ruglárunum fyrir hrun. Ég held að það ætti þá bara að segja að bannað væri að fara með tómt bull og vitleysu um opinber fjármál, það ætti að horfa á mælana og taka mark á þeim, þeir væru yfirleitt að segja satt og rétt frá. Ef mælarnir segðu að menn væru að keyra út í skurð þá væru menn sennilega að keyra út í skurð.“

Þessi orð hans eru því að mínu mati næsta kómísk í ljósi þeirrar stöðu sem við finnum okkur í í dag, að horfa ekki á mælana, hlusta ekki og hafa keyrt alla vega með annað dekkið út í skurð eins og því miður rússneska samfélagsstjarnan gerði í Mývatnssveit í gær á svo hörmulegan hátt.

Að mínu mati þurfum við að horfast í augu við það að við getum ekki verið að spinna upp einhvern stöðugleika. Við þurfum fyrirsjáanleika og við þurfum ábyrga hagstjórn. Við skuldum fólkinu að við vöndum okkur, að við gefum raunhæf loforð, að við lærum af sögunni. Það má ekki verða svo að þeir flokkar sem mestu lofi upp á tugi og hundruð milljarða, eins og gert var fyrir síðustu kosningar, fái flest atkvæðin. Við í Viðreisn höfum lagt okkur fram við að lofa eingöngu því sem hægt er að standa við því að það gagnast heimilum og fyrirtækjum best til lengri tíma litið. Við í Viðreisn viljum skora gömlu pólitík íhaldsvaldaflokkanna (Forseti hringir.) til hægri og vinstri og aðferðafræði þeirra á hólm og við erum að gera það, m.a. með því að gagnrýna þá aðferðafræði sem ríkisstjórnin hefur viðhaft varðandi framlagningu þessarar fjármálastefnu.