149. löggjafarþing — 115. fundur,  4. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[00:16]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður nefnir tvennt sem ég vil aðeins spyrja hana út í. Hún nefnir bleika fílinn og síðan bjartsýnina. Ég tek undir að við getum ekkert verið að ræða ríkisfjármálin eða hagstjórnina nema ræða krónuna því að krónan veldur hagsveiflum sem eru okkur dýrkeyptar. Ég sagði fyrr í kvöld að ég gæti vel ímyndað mér að það sé nógu erfitt að vera í bisness á Íslandi þótt ekki bætist við að menn þurfi að vera einhverjir sérfræðingar í gjaldeyrisviðskiptum á sama tíma.

Við sjáum að gengi krónunnar á samkvæmt forsendum þessarar stefnu að haldast óbreytt næstu fimm árin. Það er með ólíkindum í ljósi sögunnar því að ekkert OECD-ríki hefur upplifað eins miklar sveiflur í raungengi gjaldmiðilsins og Ísland hefur gert undanfarin 15 ár. Bara á undanförnum 12 mánuðum hefur gengi krónunnar lækkað um 13% en lækkun gengis krónunnar hefur að sjálfsögðu þau áhrif á verð á innfluttum vörum að það hækkar að u.þ.b. 1/3 hvað þetta varðar. Við getum ekki búist við stöðugleika í ríkisfjármálum á meðan við höfum krónuna. Mig langar að fá frekari vangaveltur hv. þingmanns hvað það varðar, hvernig hún sér fyrir sér þróun gengismála í þessu blessaða landi og hvort ekki sé löngu kominn tími á að við tökum alvöru- og djúpa umræðu um hvort við ættum ekki að taka upp annan gjaldmiðil.

Ég hef sagt að það sé hvorki heimska né tilviljun að 19 þjóðir í Evrópu hafa tekið upp evru og þá gæti verið sérstaklega hentugt í tilviki Íslendinga að stór hluti af okkar viðskiptum á sér stað annars vegar í evrum og hins vegar í dönskum krónum sem eru síðan bundnar við evruna, eru í raun evra með dönsku drottningunni á.

Það verður fróðlegt fyrir þingheim að heyra vangaveltur þingmanns varðandi gjaldmiðilsmálin.