149. löggjafarþing — 115. fundur,  4. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[00:28]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég ræddi það áðan að ég fordæmi ekki ríkisstjórnina af því að bregðast við heldur að hafa á sínum tíma að mínu mati sett kíkinn fyrir blinda augað. Sama hvað hagspá Hagstofunnar líður höfðu aðrir aðilar varað ítrekað við þessu, eindregið, aðilar sem alla jafna hefði verið hægt að hlusta á og ríkisstjórnin gerir af og til þegar hentar. Reyndar heyrði ég í morgun mjög gott viðtal á Rás 2 við hagfræðing hjá Arion banka sem mér fannst frekar vera á því að miða ætti við svartsýnustu spár Seðlabankans en þær bjartsýnustu. Það eru mjög mikilvæg teikn á lofti sem ég hvet ríkisstjórnina til að taka alvarlega í dag. Ekki gera sömu mistökin og gerð voru síðast.

Ég verð bara að skilja að það var ákveðin, dúndrandi pólitík og það er auðvitað pólitík hvernig brugðist er við veikleikum, hvernig veikleikar eru metnir hverju sinni. Það er bara dúndrandi pólitík. En það hvernig fjármálastefnan var sett fram var ákveðið markvisst til að halda ríkisstjórninni saman af því að flokkar eins og Vinstri grænir voru stressaðir í upphafi. Það var mikill óróleiki og þá þurfti að setja allt á blússandi ferð. Varað var við því að fara í efnahagslega uppsveiflu með allt á fullt og líka að lækka skatta og gjöld eins og veiðigjöldin. Það er þessi eitraða blanda sem m.a. Þorsteinn Víglundsson hefur bent ítrekað á. Við þreytumst ekki á því að segja það þannig að ég segi bara aftur — af því að hv. þingmaður er formaður fjárlaganefndar og nefndin er í góðum höndum þess góða þingmanns: Ekki gera sömu mistökin. Leiðréttið kúrsinn hjá ríkisstjórninni. Það er hlutverk fjárlaganefndar. Hlustið á þessa sérfræðinga og þessar viðvaranir. Á endanum (Forseti hringir.) er efnahagslegur stöðugleiki miklu mikilvægari en líf ríkisstjórnarinnar einnar og sér.