150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Enn einu sinni vil ég gera nýsköpun og þróun að umtalsefni. Það er kunnara en frá þurfi að segja að atvinnuhorfur háskólanema í sumar eru slæmar og mörg nýsköpunar- og sprotafyrirtæki eiga í erfiðleikum með að sinna mikilvægum verkefnum vegna fjárskorts. Síðastliðinn föstudag úthlutaði Nýsköpunarsjóður námsmanna styrkjum á grundvelli viðbótarfjármagns sem var veitt í sjóðinn vegna heimsfaraldurs Covid-19 og takmarkaðra atvinnutækifæra í sumar. Samtals voru þetta 360 millj. kr. til 284 verkefna vegna 426 nemenda. Umsóknir voru hins vegar fyrir 1.401 námsmann og mun fleiri verkefni. Samtals var sótt um 3.980 mannmánuði en 1.200 var úthlutað. Árangurshlutfall var 30% þannig að augljóst er að þörfin er miklu meiri en unnt var að sinna. Lausleg yfirferð yfir úthlutanir sýnir að a.m.k. tveir þriðju hlutar þeirra runnu til verkefna hjá stofnunum og skólum sem eru fjármagnaðir af ríki eða sveitarfélögum. Mikill minni hluti rann til verkefna hjá fyrirtækjum. Allt þetta sýnir að enn er brýn þörf á að koma til móts við nýsköpun og þróun, ekki síst hjá sprotafyrirtækjum, og sinna um leið þörf háskólanema fyrir atvinnu við verkefni sem hæfa þeirra námi og veita dýrmæta reynslu og þjálfun.

Hér er hægt að slá tvær flugur í einu höggi. Ég vil því skora á Alþingi að bregðast við þessu með því að veita án tafar a.m.k. 250 millj. kr. til Nýsköpunarsjóðs námsmanna til að geta veitt fleiri styrki. Okkur er þetta í lófa lagið við afgreiðslu fjáraukalaga. (Forseti hringir.) Umsóknir liggja fyrir og sömuleiðis mat á þeim umsóknum. Úthlutun á því að geta gengið hratt og vel fyrir sig og skilað miklum árangri fyrir nýsköpun í landinu.