150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Það er víst þannig að u.þ.b. helmingur af íslenskum landvistkerfum eru metin í lélegu vistfræðilegu ástandi. Ríkir mikið ójafnvægi í kolefnisbúskap þessara kerfa og það verður líka mikil losun gróðurhúsalofttegunda frá löskuðum vistkerfum. Áætlað er að um 8 milljónir tonna af koldíoxíðsígildi losni frá framræstu votlendi ár hvert en það er minna vitað um losun frá röskuðum þurrlendisvistkerfum eða fullkomlega eyddu landi. Til þess að geta staðið við þær skuldbindingar sem stjórnvöld hafa undirgengist í gegnum samkomulag Íslands við ESB og Noreg um sameiginleg markmið um minni losun slíkra lofttegunda frá landi fyrir árið 2030, og þá innan Parísarsamkomulagsins, þarf sannreynanlegar upplýsingar um losunina. Sama gildir vegna markmiða ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutlaust Ísland 2040.

Á síðasta hausti kom hingað ráðgjafateymi frá ESB til að vinna með okkur að úttekt á losun og bindingu innan svokallaðs landnýtingarhluta. Í úttektinni kom fram að ítarlegri upplýsingar um losun frá röskuðu landi eru annað af tveimur lykilatriðum sem Ísland þarf að bæta til að efla kolefnisbókhaldið, sem nauðsynlegt er. Þess vegna þarf að setja upp fimm ára grunnmælingaverkefni. Það er þá verkefni sem er samstarfsverkefni Landgræðslunnar, Landbúnaðarháskóla Íslands og Skógræktarinnar. Stjórnvöld þurfa að fjármagna það sérstaklega og áætluð fjárþörf er um 100 millj. kr. á ári í fimm ár. Þetta verkefni þolir enga umtalsverða bið, herra forseti, enda er það sameiginleg áskorun til allra flokka á Alþingi að tryggja sem best framtíð fólks í þessum efnum og slík alvörumál krefjast mikils metnaðar.