150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu.

634. mál
[14:35]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Margir hafa unnið að þessu máli af góðum hug. Svo bar við í umræðum í gær að eftir að framsögumaður nefndarálits, hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson, hafði ítrekað fjallað um hugtakið mannhelgi í ræðu sinni spurði hv. þm. Birgir Þórarinsson hv. framsögumann hvort mannhelgin næði til óborinna barna í móðurkviði. Svaraði hv. þingmaður efnislega á þá leið að svo væri ekki, enda hefðu ófædd börn verið skilgreind þannig að mannhelgin tæki ekki til þeirra. Um þá afstöðu mætti hafa mörg orð en ég læt duga að segja að mér þykir ekki fara vel á (Forseti hringir.) því að hv. þingmaður og aðrir hv. þingmenn —

(Forseti (SJS): Forseti telur ekki við hæfi að hv. þingmaður víki svona að öðrum þingmanni þegar hann er að gera grein fyrir atkvæði sínu. Hér er um það að ræða að þingmenn gera grein fyrir atkvæði sínu en nota ekki það tækifæri til árása á aðra þingmenn sem ekki geta tekið til máls eftir að annar hefur hafið að gera grein fyrir atkvæði sínu. Þeir sem í hlut eiga eru þar af leiðandi dauðir í umræðunni og verða að sæta ákúrum án þess að geta borið hönd fyrir höfuð sér. Forseti biður hv. þingmann að láta af því að vitna með þessum hætti til afstöðu annarra þingmanna. )

Herra forseti. Ég mun ekki greiða atkvæði um þetta mál.