150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[14:51]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka framsögumanni fyrir ágæta yfirferð yfir nefndarálitið. Þetta er mjög áhugavert mál að mörgu leyti enda gríðarlega mikilvægt að Orkusjóður sé efldur og styrktur og vonandi verða þau skref sem eru tekin til þess að gera það og auðvelda sjóðnum starfsemi sína.

Mig langar að nýta tækifærið, herra forseti, og vekja athygli á því að ég sat reyndar fundinn í gegnum fjarfundabúnað þannig að ég var þátttakandi í umræðunni og tók í sjálfu sér þátt í öllu á fundinum. En þrátt fyrir það verð ég að viðurkenna að tvennt fór fram hjá mér og mig langaði að ræða það stuttlega við hv. framsögumann, sem er nú reyndar þegar búinn að óska eftir að málið verði kallað inn á milli 2. og 3. umr. Einhvern veginn fór það fram hjá mér við umræðuna í nefndinni að það kom mjög áhugaverð ábending frá Samtökum iðnaðarins um að Orkusjóður verði skyldaður til að birta opinberlega árlega skýrslu um starfsemi sína og úthlutun styrkja til verkefna. Ég veit að það var rætt í nefndinni á sínum tíma og var umræðan um það almennt jákvæð, enda held ég að það sé bara mjög gott mál að gagnsæi sé aukið, að það sé skýrt hvað sjóðurinn gerir hverju sinni. Mig langaði að kalla eftir afstöðu hv. framsögumanns gagnvart þeirri athugasemd Samtaka iðnaðarins og hvort ekki væri eðlilegt að skoða betur að bæta því við.