150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

712. mál
[16:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Ásmundur Friðriksson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir með vini mínum, hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni, og þakka honum fyrir það sem hann sagði. Ég tek undir það að við eigum ekki að skilja neinn eftir. Ég bið hann líka afsökunar á því að ég hafi kennt hann við atvinnuveganefnd, sem er líka góð nefnd þó að við sitjum ekki þar saman. En það er bara svo ánægjulegt að sitja með honum í nefnd að mér finnst ég alltaf vera með honum.

Ég tek undir að við framkvæmdir í samfélaginu, hvort sem það er við gerð hjólastíga, reiðleiða eða annars, eigi að reyna eftir fremsta megni og alltaf að hafa í huga að leiðin sé fyrir alla. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Og af því að hv. þingmaður nefndi þann ótrúlega einstakling sem kleif fjall í hjólastól þá langar mig að segja frá því að okkar ágæti og góði vinur, Guðjón Sigurðsson, formaður MND-félagsins, sendi mér einu sinni kveðju og sagði: Það sem ég ætla að gera í sumar er að fara á Hvannadalshnjúk, í lundaveiði og í fallhlífarstökk. Ég segi um fólk með svona hugsun, sem er svona ákveðið í að lifa lífinu, að við sem hér erum verðum að gera allt til þess að draumar þess rætist eins og draumar okkar. Til þess þarf aðgang sem við höfum flest sem er bara einfaldari og auðveldari en sá sem fatlaðir hafa. Þess vegna er mikilvægt að skilaboð okkar félaganna út í samfélagið séu þau að algild hönnun sé forsenda þess að ferðamannaleiðir og annað sem ríkið ber kostnað af sé fyrir alla og að engan eigi að skilja eftir.